133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[19:05]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var mælt fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Í fjárlaganefnd eru 11 nefndarmenn og fjórir rita undir þetta nefndarálit, fulltrúar meiri hlutans, og þar af sýnist mér einn þeirra vera varamaður, hv. þm. Gunnar Örlygsson, ef ekki hafa orðið breytingar frá því að nefndarskipun þingsins var gefin út. Ég spyr hv. þm. Drífu Hjartardóttur hvernig á því að standi að hér sé einungis um að ræða nefndarálit 1. minni hluta. Það er ekki meiri hluti nefndarinnar sem leggur fram nefndarálit um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2005 og þar er til að mynda enginn fulltrúi hins stjórnarflokksins, þ.e. Framsóknarflokksins. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa ekki setið þennan fund og hér er aðeins um að ræða fjóra hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég get skilið að minni hluti nefndarinnar, stjórnarandstaðan, skili ekki sérstöku nefndaráliti um þetta frumvarp þar sem það hefur verið afstaða hans að meiri hlutinn á Alþingi beri alla ábyrgð á framkvæmd fjárlaga. Hins vegar skýtur skökku við að hér skuli koma nefndarálit um frumvarp til lokafjárlaga, lokaafgreiðsla nefndarinnar, og aðeins eitt nefndarálit og það er ekki hægt að manna meiri hlutann.