133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

eftirlit með gasbúnaði í hjólhýsum.

344. mál
[13:26]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur beint til mín fyrirspurn um eftirlit með gasbúnaði í hjólhýsum og húsbílum.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður um hvernig eftirlit og skoðun fari fram á gasbúnaði í hjólhýsum og húsbílum. Reglur nr. 108/1996, um tæki sem brenna gasi, byggja á tilskipunum ESB og kveða á um öryggi slíks búnaðar. Vinnueftirlitið hefur samkvæmt þeim reglum eftirlit með gasbúnaði sem markaðsettur er hér á landi, hvort heldur hann er ætlaður til nota í atvinnurekstri eða af einstaklingum, en heimilt er að fela stofnuninni slíkt eftirlit skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Gasbúnaður í hjólhýsum, fellihýsum og húsbílum fellur undir gildissvið reglnanna og hefur eftirlit með slíkum búnaði aðallega verið með þeim hætti að úttektir eru gerðar hjá innflutningsaðilum. Ef í ljós kemur að búnaðurinn samræmist ekki ákvæðum reglnanna er markaðssetning tækjanna bönnuð þar til búnaðurinn uppfyllir ákvæði reglnanna. Slíkt bann er sett á með vísan til 8. gr. reglnanna og 48 gr. laga nr. 46/1980.

Innflutningsaðilum hefur verið gerð grein fyrir ákvæðum reglnanna með bréfaskriftum, heimsóknum og fundum. Nokkur misbrestur var á því að eftir reglunum væri farið í upphafi en úr því var leyst. Vandamál lutu aðallega af því þegar búnaður var fluttur inn frá Bandaríkjunum en þar gilda aðrar reglur en innan Evrópusambandsins og búnaðurinn því ekki viðurkenndur á EES-svæðinu. Erfiðleikar hafa hins vegar verið á því að framfylgja reglum þessum þegar innflutningur fer ekki í gegnum hefðbundna innflutnings- og markaðsaðila. Í þeim tilvikum hefur Vinnueftirlitið alla jafna ekki vitneskju um innflutninginn.

Á undanförnum árum hefur töluvert verið um að einstaklingar flytji inn húsbíla, húsvagna, fellihýsi og tjaldvagna sem innihalda búnað sem uppfyllir ekki ákvæði reglna nr. 108/1996, um tæki sem brenna gasi. Nánar tiltekið er um að ræða búnað eða tæki sem brenna gasi og bera ekki svokallaða CE-merkingu og/eða þeim fylgir ekki samræmisyfirlýsing, sbr. 4. gr. reglna nr. 108/1996. Reynt hefur verið að upplýsa almenning um þetta m.a. með fréttatilkynningu á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Jafnframt hefur athygli milligönguaðila sem auglýsa aðstoð við kaup á slíkum tækjum verið vakin á ákvæðum reglnanna nr. 108/1996.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn um hvort til greina komi að breyta því fyrirkomulagi sem nú er viðhaft.

Til að bregðast við erfiðleikum með eftirliti með að húsbílar, fellihýsi og hjólhýsi sem einstaklingar flytja inn uppfylli ákvæði reglnanna hefur Vinnueftirlitið óskað eftir samstarfi við tollstjóraembættið og Umferðarstofu um aðstoð við að sinna eftirlitinu. Markmiðið með slíku samstarfi væri að Vinnueftirlitið yrði upplýst um þegar tæki koma til landsins sem hafa að geyma búnað sem uppfyllir ekki ákvæði reglna nr. 108/1996 og þannig koma í veg fyrir að hann sé tekinn í notkun. Hugmynd stofnunarinnar er að hlutverk tollstjóraembættisins væri að tollafgreiða ekki búnað að svo stöddu ef upp kemur að hann uppfylli ekki ákvæði reglnanna um CE-merkingu og um samræmisyfirlýsingu. Það kæmi þá í hlut Umferðarstofu að hlutast til um það við skoðunarstofur að þær hafi við skoðun slíkra tækja eftirlit með að gasbúnaður í húsbílum, húsvögnum, fellihýsum og tjaldvögnum uppfylli ákvæði reglna nr. 108/1996. Unnið hefur verið að því að koma þessari samvinnu á laggirnar.