133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

virkjunarframkvæmdir í neðri Þjórsá.

[14:00]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil almennt segja um virkjanir bæði vatnsafls og jarðvarma að við eigum að ganga varlega um. Við eigum að fara okkur hægt. Við þurfum að ná sátt um það hvernig við skiptum arðinum til þjóðarinnar. Eins og hér hefur verið sagt og ég ætla að endurtaka þá getur verðið ekki annað en hækkað. Ég tel að við séum ekki að missa af neinum tækifærum.

Ég vil halda því til haga að í allri umræðunni um auðlindanýtingu, náttúruvernd og áætlanir þar um þá eigum við að huga sérstaklega vel að annarri nýtingu lands en virkjunum. Við verðum sérstaklega að huga að því að náttúruverndin og friðlýsingin er ein tegund landnýtingar sem líka getur skilað okkur arði í þjóðarbúið.

Ég tel að málefnaleg og ábyrg umræða um náttúruvernd, stóriðju og umhverfismál sé af hinu góða og bráðnauðsynleg en umræðan þarf að vera ábyrg. Hún þarf að vera málefnaleg en ég tel hins vegar að með því að blanda í þessa umræðu afstöðu einhvers til eignarnáms, sem ekkert hefur verið í þessari umræðu heldur þvert á móti samningar eða ekki samningar við landeigendur, þá geti það orðið til þess að skaða umræðuna og gera hana síður málefnalega.

Að lokum, forseti. Við verðum að gæta þess að stóriðja verði ekki eitt allsherjarskammaryrði því hún getur verið miklu meira og annað heldur en álver. Ég vil í þessu tilviki sérstaklega nefna áhuga minn á stóriðju sem felst í framleiðslu eldsneytis á fiskiskipaflotanum úr korni ræktuðu í Kanada, eins og áform eru um í Eyjafirði og menn hafa kynnt, m.a. umhverfisráðuneytinu. Þetta getur orðið að veruleika, dregið úr gróðurhúsavanda og framleiðsla á bíódísil í stórum stíl væri sannkölluð græn stóriðja.