133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:29]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að ég tel að þetta sé alls ekki nóg. Það þýðir ekki að ég sé á móti frumvarpinu. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að það sé ágætt svo langt sem það nær. Það er fínt að fá svona safn þar sem þetta er skráð og menn vita þó hvar það er, jafnvel þó það sé ekki allt saman komið á einum stað. En það skiptir engu máli, finnst mér, varðandi það að upplýsa hvað raunverulega fór fram af hálfu hinnar strangleynilegu öryggisþjónustu, þar sem segir hér og nákvæmlega sú setning sem hæstv. ráðherra reifaði áðan, hún sagði, með leyfi forseta:

„Lögreglan átti frumkvæðið að hlerunum í apríl 1951 og 1968. Um annað er ókunnugt.“

Þarna stendur að hún hafi átt frumkvæði að hlerunum 1951 og 1968. Ef maður ber þetta saman við ýmislegt sem kemur fram í hinni stóru og miklu fylgiskýrslu sem kemur fram með skýrslunni, þ.e. ítarefninu, þá er hægt að lesa úr þeim skjölum ýmislegt sem bendir einfaldlega til þess að hugsanlega hafi upphafið að slíkum hlerunum og að slíkri háttsemi lögreglunnar átt sér upptök annars staðar en hjá lögreglunni sjálfri. Það hefur reyndar komið skýrt fram að stundum virðist sem beinlínis hafi verið óskað eftir því af stjórnmálamönnum.

Að því er varðar flutning á þessu til Ísafjarðar, þá er það svo að bókasafnið þar var stofnað af fátækum verkamönnum, alþýðuflokksmönnum og sósíalistum í árdaga og ég bara fagna því ef þetta kemst í vörslu þeirra (Forseti hringir.) og inn á starfssvið þeirra og styð það góða starf, þar sem ég naut margra góðra (Forseti hringir.) stunda þegar ég var ungur maður á Ísafirði.