133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:09]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur fram á bls. 11 í þessu þingskjali, í kafla 2.3.2. Helstu niðurstöður viðtala voru eftirfarandi. Þar segir, með leyfi forseta: „Ávallt var kveðinn upp dómsúrskurður sem heimilaði hleranir áður en þær voru framkvæmdar.“

Gallinn í röksemdafærslu og áróðri stjórnarandstöðunnar í þessu máli, sem einatt talar um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir að það liggi fyrir að forsvarsmenn Alþýðuflokksins sáluga og Framsóknarflokksins hafi kannski verið upphafið að þeirri starfsemi sem við erum að ræða, er að hv. þingmenn sleppa því alltaf að hleranirnar voru heimilaðar að undangengnum dómsúrskurði. Vilji menn gera einhvern ágreining um hvort rétt hafi verið að fara í þessar hleranir eða ekki, sem ég ætla ekkert að leggja dóm á, þá er verið að hengja ranga menn, ráðamenn í Sjálfstæðisflokknum. Það eru dómstólarnir sem heimiluðu þessar hleranir. Það er auðvitað eðlilegt vegna þess að hleranir eru náttúrlega alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks.

Aðalatriðið er að þær voru heimilaðar á grundvelli gagna sem óháður þriðji aðili, þ.e. dómstólar, tók afstöðu til á sínum tíma. Í ljósi þess og í ljósi þeirra staðreynda er ekki hægt að fjalla um þetta mál eins og hér hafi verið teknar einhliða ákvarðanir ráðamanna um pólitískar njósnir, nema menn haldi því fram að á sama tíma hafi dómstólar tekið þátt í þessu pólitíska samsæri. Ég leyfi mér að halda því fram að svo hafi ekki verið.