133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þinghaldið fram undan.

[22:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í dag klukkan eitt var að venju á mánudegi efnt til fundar með formönnum þingflokka, hæstv. forseti þingsins boðaði til fundarins, þar sem okkur var tilkynnt að til stæði að efna til kvöldfundar. Það var gert gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar. Þá fórum við þess á leit við hæstv. forseta þingsins að hún gerði okkur grein fyrir áformum ríkisstjórnarinnar nú á síðustu metrum þinghaldsins, hvort til stæði að efna til fleiri kvöldfunda í vikunni og hver áformin væru almennt varðandi þinghaldið. Það voru engin svör um það efni.

Nú er klukkan að verða ellefu að kvöldi og ég beini þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort hann hyggist hefja umræðu um 3. dagskrármálið, veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi, eða ljúka þessum fundi nú. Ég tel eðlilegt að við segjum þetta gott í dag og ljúkum þingfundi. Það er orðið áliðið kvölds, kvöldfundur hefur farið fram, en ég vildi gjarnan heyra hvaða áform hæstv. forseti hefur um framhaldið.