133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:42]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér, þegar ég sá að þetta mál var á dagskrá, að ræða það í fullan ræðutíma eins og þingsköp heimila en horfandi á klukkuna á veggnum, að nálgast miðnætti, ætla ég að reyna að stytta mál mitt og flýta fyrir þessari 1. umr. eins og hægt er.

Við fórum aðeins yfir það, ég og hæstv. sjávarútvegsráðherra, í stuttum andsvörum áðan að nauðsynlegt væri að efla Landhelgisgæsluna í framhaldi af því að herða ætti möguleika okkar á að hafa eftirlit og áhrif á þá fiskveiði sem fer fram utan landhelgi. Ég geri ekki annað en að lýsa aftur ánægju minni með að menn geri sér grein fyrir því. Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegsráðherra og er ætlað að vera liður í baráttunni gegn ólöglegum veiðum erlendra fiskiskipa í fiskveiðilandhelginni“ — þ.e. að segja innan landhelginnar — „og einnig utan hennar, m.a. á úthafinu, en með frumvarpinu er stefnt að því að skapa enn tryggari grundvöll og fjölga þeim úrræðum sem íslenskum stjórnvöldum eru tæk í baráttunni við að uppræta ólöglegar fiskveiðar á úthafinu.“

Ég benti á það í andsvari mínu að lögin heita Lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Það þýðir einfaldlega að í þeim lögum er einnig fjallað um veiðar utan fiskveiðilandhelginnar og hljótum að þurfa að velta því fyrir okkur þegar við tökum þetta mál upp í sjávarútvegsnefnd.

Í athugasemdunum segir að ólöglegar og óábyrgar veiðar séu alþjóðlegt vandamál og þjóðir heims séu farnar að gera sér grein fyrir því að þær þurfi í sameiningu að taka á slíkum veiðum. Margar þjóðir hafa komið sér saman um að nauðsynlegt sé að stýra á einhvern hátt sókn í fiskstofna þar sem margir eiga hagsmuna að gæta og hafa komið sér saman um það eftir alþjóðlegum leikreglum að þannig eigi það að vera. Ég tek heils hugar undir það að nauðsynlegt sé að ríkin fari að slíkum reglum en leyfi sér ekki að brjóta þær þegar það hentar. Allar þjóðir hljóta að þurfa að gæta þess að verða ekki uppvísar að tvískinnungshætti, þ.e. að það sé í lagi að ganga gegn reglum alþjóðasamfélagsins þegar þeim þykir það henta, en ef aðrir ganga gegn reglum alþjóðasamfélagsins eigi að taka á því af fullri hörku og jafnvel beita þeim aðferðum að klippa aftan úr skipum sem eru á alþjóðlegu hafsvæði að veiðum.

Ég nefni þetta vegna þess að við Íslendingar erum í augum heimsins ekki svo ólíkir mörgum þeim sem eru að stunda veiðar sem við köllum bæði ólöglegar og óábyrgar. Mikill fjöldi þjóða telur Íslendinga stunda ólöglegar og óábyrgar veiðar og á ég þar við hvalveiðar. Mig langar að heyra frá hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann óttast ekki að þessi sama vandlæting og þessi sömu rök og hann hafði í ræðupúlti áðan beinist gegn Íslendingum. Hann talaði um að það gengi ekki að einhverjir leyfðu sér að ganga gegn þeim reglum sem settar hefðu verið. Við því yrði að bregðast af hörku og þjóðir heims yrðu að sameinast um að tekið yrði á lögbrjótum eða þeim sem hegðuðu sér á þann veg.

Hlýtur þá hæstv. ráðherra ekki um leið að óttast að tekið verði á Íslendingum vegna veiða sem margar þjóðir telja bæði ólöglegar og óábyrgar? Hér kem ég að því sem ég sagði áðan. Við hljótum alltaf að þurfa að gæta okkar á því að verða ekki uppvís að tvískinnungi þegar kemur að því að umgangast auðlindir hafsins. Burt séð frá því hvaða skoðun við höfum, þ.e. hvort við teljum það heilagan rétt okkar að veiða hval o.s.frv., gilda ákveðnar reglur um það í alþjóðasamfélaginu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann óttist ekki að með sömu vandlætingu verði tekið á okkur — vandlætingunni sem skein af honum þegar hann stóð í ræðustólnum og sagði að taka yrði á þeim þrjótum sem ekki virtu reglur alþjóðasamfélagsins.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra um þennan IUU-lista sem skip geta lent á ef þau stunda ólöglegar veiðar, „unreported and unregulated fisheries“ eins og segir í textanum. Veit ráðherra til þess að íslensk skip eða skip í eigu Íslendinga hafi lent á þessum listum fyrir veiðar á öðrum alþjóðlegum hafsvæðum eða annars staðar í heiminum? Er hæstv. ráðherra kunnugt um að íslensk fyrirtæki hafi stundað viðskipti með slíkan afla? Afla sem hefur borist af alþjóðlega hafsvæðinu fyrir sunnan landhelgi okkar eða afla sem hefur borist af sambærilegum hafsvæðum annars staðar þar sem íslensk skip eða útgerðir að hluta eða öllu leyti í eigu Íslendinga hafa stundað veiðar af því tagi. Um leið og við viljum að tekið sé á þeim sem gera slíkt hér hljótum við að styðja það að eins verði tekið á þeim sem stunda slíkt annars staðar, hvort sem þeir geta heitið íslenskir að hluta eða að öllu leyti.

Ég sé að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði forgöngu um að koma á starfshópi til að fara yfir hvað hægt væri að gera til að bregðast við þessum veiðum og farið var yfir fjölda atriða. Það vakti athygli mína að skoðað var hvort hægt væri að banna íslenskum fyrirtækjum, inn- og útflytjendum og þjónustuaðilum, að stunda nokkur viðskipti með afla sem upprunninn er úr skipum á þessum listum eða eiga viðskipti við útgerðir þeirra. Ég sé að starfshópurinn hefur ekki lagt það til eða hæstv. ráðherra ekki talið gerlegt að taka það upp í lagafrumvarpinu að banna viðskipti af því tagi með öllu.

Nokkuð mörg atriði sem nefnd eru þarna eru ekki tekin upp í frumvarpinu, bæði vegna þess að ákveðið hefur verið að gera það ekki og eins vegna þess að þau eru á verksviði annarra ráðuneyta sem ekki hafa tekið ákvörðun um eða farið af stað með breytingu á lögum til að hægt sé að ganga fram með þeim hætti sem starfshópurinn skoðaði.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, hæstv. forseti, vegna þess hve áliðið er orðið. Ég geymi mér aðrar spurningar þar til málið verður tekið fyrir í sjávarútvegsnefnd. En þær spurningar sem ég bar fram um hegðun okkar og annarra eru grundvallarspurningar og ég held að gott væri að heyra svör hæstv. ráðherra við þeim. Þau svör hljóta að hafa áhrif á starfið fram undan.