133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:55]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir gagnorða umræðu um þetta mál sem mér heyrist býsna mikill samhljómur í. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að í húfi eru heilmiklir hagsmunir sem við viljum verja. Það er alveg rétt að ég hef lagt nokkra áherslu á þetta mál einfaldlega vegna þess að í því eru fólgnir miklir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga.

Það sem við ræðum einkanlega í þessu sambandi eru veiðar á karfa á Reykjaneshrygg. Þar er um að ræða stofn sem er í veikri stöðu. Þarna eru hentifánaskip sem hafa farið til veiða og stunda veiðar með ólöglegum hætti. Um er að ræða útgerðir sem manna skip sín áhöfnum frá láglaunaríkjum og koma sér hjá því að greiða þeim eðlileg kjör. Þær selja síðan þessar afurðir sínar inn á markaði í samkeppni við okkur, undirbjóða okkur á erlendum mörkuðum og draga þar með úr möguleikum okkar á að fá sanngjarnt verð fyrir okkar afurðir.

Um er að ræða hagsmuni upp á milljarða. Það er því eðlilegt að á Alþingi sé í meginatriðum samhljómur í því að við reynum að verja þá miklu hagsmuni. Um er að ræða fiskstofn sem skiptir miklu máli, ekki einungis fyrir einstakar útgerðir heldur fyrir hagsmuni þjóðarbúsins í heild.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði. Auðvitað skiptir mjög miklu máli í þessu að við Íslendingar séum sjálfum okkur samkvæmir og sýnum ekki með nokkrum hætti tvískinnungshátt í þessum efnum. Þær reglur sem verið er að leggja til hér eiga að gilda jafnt um íslenska aðila, ef þeir gerðust brotlegir, sem erlenda. Auðvitað verður tekið með nákvæmlega sama hætti á íslenskum aðilum sem gerast brotlegir eins og erlendum aðilum. Þess vegna er gert ráð fyrir þessum miklu heimildum til þess að afla upplýsinga á öllum stöðum til þess að við getum fylgst með því að íslensk fyrirtæki taki ekki þátt í þessu sem ella gæti gerst.

Mér er svo sem ekki kunnugt um slíkt. Vel má vera að eitthvað hafi gerst í þessum efnum í fortíðinni sem mér er ekki kunnugt um. En mér er a.m.k. ekki kunnugt um það í nýliðinni fortíð að íslenskir aðilar hafi komið að útgerðum eða söluhagsmunum eða neinu slíku á slíkum afurðum. Ef svo væri yrði tekið á því með nákvæmlega sama hætti og tekið yrði á öðrum aðilum. Ég tek undir það.

Hvalveiðar eru einfaldlega löglegar samkvæmt alþjóðalögum. Við erum þar í fullum rétti og ekki á nokkurn hátt að sýna tvískinnung í þeim efnum.

Við vitum að upp hafa komið ýmis tilvik þar sem líkur hafa verið leiddar að því að Íslendingar hafi með einhverjum hætti komið að viðskiptum af þessu tagi. Þegar slík mál hafa komið upp, t.d. í fyrra, hafði ég sem sjávarútvegsráðherra samband og gekk eftir því að Íslendingar væru ekki á nokkurn hátt þvældir inn í slík viðskipti. Var alltaf vel við því brugðist. Íslensk fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega gera sér grein fyrir því að það er ekki í þeirra þágu að nafn þeirra tengist á nokkurn hátt við þær ólöglegu veiðar. Þessar veiðar hafa mjög slæmt orð á sér.

Ekki er einungis um að ræða frumkvæði okkar Íslendinga eitt og sér, þó við höfum á vissan hátt verið á oddinum í þessari baráttu, heldur er þetta vaxandi áhyggjuefni mjög margra ríkja. Breski sjávarútvegsráðherrann, sem hefur ekki alltaf verið besti vinur minn í ýmsum öðrum málum, hefur haft sömu skoðanir. Norsk stjórnvöld hafa talað með þessum hætti og nýlega hitti ég sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins sem lagði enn fremur mjög mikla áherslu á þetta mál. Ég held því að býsna mikill samhljómur sé í alþjóðasamfélaginu um þetta mál.

Varðandi spurningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, um heimildir erlendra ríkja til veiða í íslenskri landhelgi, þá er það byggt á samningum við viðkomandi ríki. Það byggist yfirleitt á gagnkvæmum veiðiheimildum sem við erum þar með að útvega okkur. Þetta eru takmarkaðar heimildir og samningsbundnar. Þær hafa verið lagðar fyrir Alþingi og við höfum tekið afstöðu til þeirra.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Í því geta falist tækifæri að veita þessum skipum þjónustu. Við höfum verið að hagnast á því að selja þeim skipum sem hér hafa landað þjónustu. Norsk skip, færeysk skip og mörg önnur. Það er rétt að um tíma var töluvert um að skip sem veiddu vestur á Dohrn-banka kæmu með rækju og hefðu hér viðdvöl og seldu í sumum tilvikum afla sinn eða umskipuðu honum og keyptu síðan þjónustu. Um tíma var þetta á Ísafirði. Á seinni árum hefur þetta verið í Hafnarfirði. Það er vissulega verkefni okkar og verkefni þjónustuaðila að reyna að sinna þessu, heilmiklir hagsmunir eru fólgnir í því.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að fara um þetta mál fleiri orðum. Hjá hv. þingmönnum hafa í meginatriðum komið fram jákvæðar viðtökur við frumvarpinu. Það er eðlilegt, eins og hv. þingmenn hafa nefnt, að yfir þessi mál sé farið í sjávarútvegsnefnd og kallaðir verði til þeir aðilar sem geta varpað frekari ljósi á málið, bæði úr ráðuneytinu og eins úr hópi þeirra sem vel þekkja til.

En ég ítreka að um er að ræða heilmikla hagsmuni. Hagsmuni sem óþarft er að taka fram að við viljum verja. Um er að ræða hagsmuni sem lúta að rétti okkar til að nýta mikilvæga fiskveiðiauðlind. Ég skil umræðuna á þann veg að um það markmið sé í sjálfu sér breið samstaða.