133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:36]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni fyrir að vekja athygli á ræðu formanns Vinstri grænna, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, og ég vil nota tækifærið og þakka honum fyrir að vekja máls á góðri stöðu framsóknarmanna um þessar mundir hvað varðar jafnréttismálin þar sem við höfum á að skipa þremur konum og þremur körlum af sex ráðherrum okkar í ríkisstjórn. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir axli ábyrgð sína í jafnréttismálunum og veiti þar með bæði körlum og konum framgang í stjórnmálunum.

Í gær spunnust miklar umræður um störf þingsins og tækifæri okkar þingmanna til að vekja athygli á þingmálum sem upp koma. Mér finnst grafalvarlegt til þess að hugsa eftir þessa umræðu í gær að það hefur komið í ljós að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir notaði tækifærið og vakti máls á framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins á reglugerð og tiltók þar mál einstaklings sem snýr að yngri hjúkrunarsjúklingi inni á hjúkrunarheimili. Bestu upplýsingar segja mér, það sem ég veit, að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gerði sér mörgum klukkustundum fyrir umræðuna grein fyrir því að Tryggingastofnun hefði viðurkennt að þarna hefðu átt sér stað mistök og þess vegna ákveðið að draga til baka þetta sérstaka mál gagnvart þessum einstaklingi.

Mér finnst það ábyrgðarhluti, herra forseti, þar sem við þingmenn höfum ekki mörg tækifæri á þingi til að taka upp mál sem eru mikilvæg á hverri stundu að þarna kjósi hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir að mínu mati að vekja athygli á máli sem ég tel að hún hafi vitað að væri komið í vissan farveg. Vegna þeirra miklu umræðna sem við áttum hér í gær um af hvaða tilefni við gætum kvatt okkur hljóðs undir liðnum um störf þingsins finnst mér mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni. Ég er, herra forseti, satt að segja hálfundrandi á þessu.