133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:51]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (ber af sér sakir):

Virðulegur forseti. Hér er ég sökuð um að hafa ekki lesið reglugerð. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram (Gripið fram í.) og ég vísa þessu algjörlega út í hafsauga. Það sem skeði í gær (Gripið fram í.) var að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir tók sérstakt mál upp og sagði að verið væri að rukka manneskju sem átti ekki að rukka. Það kom í ljós síðar um daginn að Tryggingastofnun hafði gert mistök og leiðréttingarferli var farið í gang (Gripið fram í: Hvað voru margir …?) og hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur var fullkunnugt um það. Starfsfólk Tryggingastofnunar hafði upplýst hana um það fyrr um daginn að leiðréttingarferlið var farið í gang. (Gripið fram í.) Samt var kosið að taka þetta mál upp í þinginu.

Ég vil algjörlega mótmæla því sem ég er sökuð um. Það hefur aldrei komið fram í þessum stól og ég hef aldrei sagt það sem hv. þingmaður er að bera hér upp á mig. Þetta er mjög ómerkilegt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að segja þetta hér. Umræðan var hins vegar ómerkileg af hálfu Samfylkingarinnar sem tekur hér upp mál sem var búið að leiðrétta við hv. þingmann og samt er það dregið hér inn. Starfsfólk Tryggingastofnunar er mjög óhresst með þetta, mér er kunnugt um það. Ég vil bara að þetta sé alveg á hreinu, virðulegur forseti, að það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að fara með hér er algjört fleipur og ég vísa því til föðurhúsanna.