133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:30]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. iðnaðarráðherra svaraði ekki síðari spurningu minni, þ.e.: Hvaða ástæður telur hæstv. ráðherra liggja að baki því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi ekki skilað árangri? Það er nefnilega það sem málið snýst um, það sem kann að heita aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur ekki borið árangur.

Það lá við, virðulegi forseti, að maður vorkenndi hæstv. ráðherra á tímabili í ræðu hans áðan en svo þegar hugurinn hvarflar aftur að því fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á hæstv. ríkisstjórn hættir maður að vorkenna hæstv. ráðherra. Þessi ríkisstjórn hefur nefnilega staðið fyrir ýmsu sem hefur komið mjög hart niður á íbúum landsbyggðarinnar. Vil ég nefna t.d. hækkun raforkuverðs sem varð með raforkulögunum. Ég nefni stöðu sveitarfélaganna sem fer stöðugt versnandi og það er ekki einu sinni hirt um að grafast fyrir um afleiðingar gerða eins og t.d. laga um einkahlutavæðingu sem er þó vitað að hefur haft mjög miklar afleiðingar á vissum svæðum landsins.

Það er alveg dagljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp. Sennilega hefur hún aldrei heldur haft neinn vilja til að taka á málunum eins og raunverulega þarf. Þessir vaxtarsamningar sem hljóma svo vel eru ágætt dæmi um það af því að þeim fylgja eingöngu smáaurar, hæstv. forseti, smáaurar þegar tekið er tillit til þess sem raunverulega þarf að gera á þeim svæðum sem við erum að tala hér um. Ríkisstjórninni hefur mistekist og það bitnar á íbúum landsbyggðarinnar með mjög alvarlegum hætti. Við sjáum það í hnotskurn núna á Ísafirði þessa dagana. (Gripið fram í: Hvar er Framsóknarflokkurinn?)