133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel þvert á móti að við eigum að reyna að stíga skref í þá átt að stuðla að því að landsmenn, ekki síst börn og unglingar, hafi heilnæma matvöru á boðstólum og neyti heilnæmrar matvöru. Það er markmið í sjálfu sér. Gott heilsufar þjóðarinnar er markmið í sjálfu sér. Skattkerfi, það er ekki markmið í sjálfu sér. Það er tæki til að ná tilteknum markmiðum. Þessu markmiði eigum við að stefna að og hlíta góðri ráðgjöf Lýðheilsustöðvar.