133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:47]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg um frumvarpið sem hér er til umræðu. Það er enn ein staðfesting á því hversu illa undirbúin ríkisstjórnin var þegar Samfylkingin kom fram með tillögur sínar til lækkunar matvælaverðs sl. haust. Ég ætla að taka sjö dæmi því til staðfestingar að ríkisstjórnin hafi einungis verið að bregðast við tillöguflutningi Samfylkingarinnar þegar kemur að lækkun matvælaverðs.

Byrjum á frumvarpinu. Verið er að gera tæknilegar breytingar á lögum um virðisaukaskatt, breytingar sem vel hefði mátt sjá fyrir þegar ákvörðun var tekin í haust. Því er um ákveðna eftirlegukind að ræða, lagfæringu á því sem ríkisstjórninni sást yfir í öllum flumbruganginum í haust og þeirri örvæntingu sem greip hana þegar tillögur Samfylkingarinnar lágu fyrir.

Í öðru lagi varð heilmikið uppnám hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að áfengisgjaldinu. Ríkisstjórnin byrjaði á því að leggja til að vaskurinn á áfengi yrði lækkaður og hækkun á áfengisgjaldi mundi vega þar upp á móti. Það var svo vanhugsað og vanreifað að hæstv. fjármálaráðherra kom í þingsal og bað hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skilja það mál einfaldlega eftir, svo illa var það unnið og engar breytingar voru gerðar hvað það varðar.

Í þriðja lagi voru strax efasemdir um þær tölur sem lágu á bak við frumvarp ríkisstjórnarinnar, um hversu mikið matvælaverð mundi lækka. Það sýndi að undirbúningurinn var ekki nógu góður hjá ríkisstjórninni.

Fjórða atriðið sem bendir til örvæntingar ríkisstjórnarinnar er það að hagsmunaaðilarnir sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í haust bentu nánast allir á slaka útreikninga hvað varðar frumvarpið sem var samþykkt fyrir jól.

Fimmta atriðið lýtur að tollunum. Ekki var minnst á tollana, hvað þeir ættu að kosta í fjárlagavinnunni, þannig að við sáum svart á hvítu að menn voru ekki búnir að hugsa hlutina til enda hvað það varðar.

Einnig má nefna að á síðustu stundu var bætt við frumvarpið í desember fjöldanum öllum af tollanúmerum, tollskrárnúmerum, vegna þess að það gleymdist að taka þessa tollaflokka inn í lækkunarhrinuna.

Sjöunda atriðið lýtur einnig að tollunum, enn er ekki víst hversu mikið tollarnir eiga að lækka og á hvaða vörum o.s.frv.

Þessi sjö atriði benda í mínum huga afskaplega skýrt á þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur einungis verið að bregðast við tillöguflutningi Samfylkingarinnar um að lækka matvælaverð. Ríkisstjórnin hefur haft tólf ár til að lækka t.d. virðisaukaskatt á matvælum, hefur ítrekað beinlínis fellt tillögur þess efnis á þingi. Við í Samfylkingunni höfum árlega lagt fram tillögu um að lækka virðisaukaskatt á matvælum og sjálfstæðisþingmenn í þessum sal hafa allir með tölu ýtt á nei-hnappinn þegar kemur að afgreiðslu þeirra mála þar til nú í haust enda kosningar í nánd.

Mikið er rætt um hversu mikil lækkun verður á matvælaverði við þessar aðgerðir og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og takast menn á um það. Auðvitað skiptir máli að þetta liggi tiltölulega vel fyrir. Það eru tveir dagar þangað til þessi lækkun á að taka gildi. Við í stjórnarandstöðunni lögðum fram tillögu, og það er ágætt að rifja það upp, um að tryggt yrði verðlagseftirlit sem tæki til starfa strax um áramótin til að fylgjast með hvort verðlag mundi lækka eins og það á að gera 1. mars. Sú tillaga var felld. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn felldu tillögu um að tryggja verðlagseftirlit sem stjórnarandstaðan sameinaðist um að þyrfti að sjálfsögðu að vera fyrir hendi.

Það er einnig mjög fróðlegt í þessu sambandi að benda þingheimi á minnisblað frá fjármálaráðuneytinu sem okkur í efnahags- og viðskiptanefnd var sýnt. Það minnisblað sýnir áætluð verðlags- og tekjuáhrif. Beinlínis er gert ráð fyrir 14,8% lækkun á matarverði. Áður en við fengum þetta minnisblað hafði talan 16% heyrst, hagsmunaaðilar efuðust stórlega um að 16% talan næðist, en umrætt minnisblað sýnir svart á hvítu að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir 14,8% lækkun á matarverði við þessar aðgerðir.

Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi sérstaklega að áhrif vörugjalda kæmu seinna fram. Ég tek undir það, í ljósi birgðastöðu viðkomandi fyrirtækja. En samkvæmt þessu minnisblaði eru einungis 2% lækkunar matvæla rakin til lækkunar vörugjalda — 2% af 14,8% er ekki mikið og eftir stæði þá væntanlega mismunurinn, þ.e. 12,8% lækkun, að því gefnu að enginn hluti vörugjaldalækkunar mundi virka 1. mars. Hv. þm. Pétur Blöndal benti einnig á að horfið væri frá 9% hækkun mjólkurafurða og að það mundi vega þungt í neysluverðsvísitölunni. Samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytisins vegur þetta 0,1% af neysluverðsvísitölunni, það eru nú öll ósköpin. Ég ætlaði bara að upplýsa menn um þetta og þetta eru tölur frá fjármálaráðuneytinu.

Það er heilmikið á reiki hve mikið matarverð mun lækka við aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Ég held að ríkisstjórnin hafi gerst sek um ákveðið yfirskot hvað þetta varðar og það sannar þá örvæntingu sem blasti við henni nú í haust þegar Samfylkingin hreyfði þessu máli enn og aftur. Þær raddir hafa heyrst, og ég held að nokkrir ráðherrar hafi meira að segja sagt það, að við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar mundum við ná meðalverðlagi á Norðurlöndunum. Eftir því sem ég best veit eigum við enn talsvert langt í land með það og við erum langt fyrir neðan meðaltal hinna Evrópusambandsríkjanna. Ég get alveg sætt mig við að bera matarverð hjá okkur saman við matarverð á öðrum Norðurlöndum og það er enn allt of hátt.

Tollarnir vega langþyngst þegar kemur að því að lækka matarverðið. Það eru flestir sammála um að allar breytingar á tollaumhverfinu skipti neytendur hvað mestu máli. Hins vegar er enn óljóst, tveimur dögum áður en þessar aðgerðir eiga að taka gildi, að hvaða marki þessar tollalækkanir verða, á hvaða vörum, hversu mikið o.s.frv. og hvað þær kosta. Það er sérkennilegt í ljósi þess að 1. mars er núna á fimmtudaginn að við getum ekki fengið skýrari svör frá ríkisstjórnarflokkunum um hversu mikið á að lækka tolla, af hvaða vörum o.s.frv. Við sjáum líka í áætlun ríkisstjórnarinnar að hún gerir ráð fyrir að lækka tolla um allt að 40% en aðilar á markaðnum hafa nú bent á að 40% lækkun á ofurtollum skilji einfaldlega eftir sig ofurtolla. Ég tel að ganga þurfi talsvert lengra þegar kemur að breyttu tollaumhverfi og að sjálfsögðu ættum við að gera það í samráði við bændastéttina, en tollarnir eru stóra málið þegar kemur að lækkun matarverðs.

Þessi umræða hófst á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson kynnti fyrir fram breytingartillögu. Mig langar að nota tækifærið og lýsa mig gjörsamlega andsnúinn þeirri breytingartillögu. Ég tel ekki skynsamlegt að samþykkja þá tillögu að hafa virðisaukaskattinn hærri á gosi eða hækka vörugjöldin. Ég er einfaldlega ósammála honum, en þetta kemur svo sem ekkert á óvart, við höfum rætt þetta áður og við tókumst á um svipað mál nú í desember. Ég tel að röksemdir hv. þingmanns haldi ekki vatni ef litið er á reynsluna. Gosdrykkir á Íslandi eru mjög hátt skattlagðir, það kom fram hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Engu að síður er neyslan mjög mikil á gosdrykkjum. Við eigum það sameiginlegt með Norðmönnum að hafa háa sykurskatta en hins vegar mjög miklu neyslu á gosdrykkjum. Ég held að það sé skýr vísbending um að sú hugmyndafræði að beita skattlagningu í þágu neyslustýringar gangi ekki upp, ég held bara að sagan sýni það og reynslan.

Það má líka benda á hin svokölluð staðkvæmdaráhrif, þau eru mikilvæg í þessu sambandi. Ef við ætlum að halda uppi háu verði á gosi, t.d. kóki, mun það halda uppi verði á öðrum drykkjum, svo sem vatni, sódavatni og öðrum hollari drykkjum. Í dag er hálfur lítri af kóki á svipuðu verði og hálfur lítri af vatni, sem er auðvitað galið í ljósi þess að á kók eru lagðir meiri skattar en á vatnið. Þó að við tækjum þau skref að lækka verð á gosi mun neyslan á hollari drykkjum jafnvel aukast þar sem þeir munu verða ódýrari.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði hvaða hagsmuni þeir sem væru á móti tillögu hans væru að verja. Ég ætla ekki að leggja honum orð í munn en hann talaði um hvort verið væri að vernda hagsmuni gosframleiðenda o.s.frv. Að sjálfsögðu tel ég mig ekki vera að gera það. Ég er einfaldlega að benda á að neyslustýringarhugsunin hefur ekki virkað, hún heldur uppi háu verði á hollari vörum og hún er óhagstæð neytendum. Ég lít á mig sem málsvara neytenda enda hafa flestir hagsmunaaðilar talað fyrir því að lækka þurfi virðisaukaskatt og vörugjöld á þessum matvælum, einnig hinum svokölluðu óhollu matvælum. Neytendasamtökin, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, allt stór hagsmunasamtök, sum hver hagsmunasamtök neytenda, sem við tilheyrum öll, sem hafa álitið að það sé neytendum í hag að lækka verð á matvælum og einnig gosi.

Við eigum að taka myndarlega til hendinni í forvarnastarfi hér á landi og verja talsverðum fjármunum í að upplýsa ungt fólk um gildi þess að neyta hollrar vöru og drekka holla drykki. Bent hefur verið á stórglæsilegt forvarnaverkefni Latabæjar. Ég held að slík verkefni séu talsvert farsælli en sú leið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Vinstri grænir bjóða upp á. Það er ákveðinn munur á Samfylkingu og Vinstri grænum og það er allt í lagi að draga hann fram í dagsljósið enda er um að ræða tvo ólíka flokka, ólíkt kannski ríkisstjórnarflokkunum sem virðast telja sér það til tekna að vera nákvæmlega eins í öllum málum. Ágreiningurinn kemur kannski ekkert sérstaklega á óvart en við sem sagt metum það svo að hagsmunum neytenda sé betur borgið með því að lækka þetta verð.

Mig langar einnig að koma inn á afstöðu hv. þingmanna sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Birgis Ármannssonar og Péturs Blöndals. Þeir hafa kastað steinum úr glerhúsi. Þeir hafa báðir, a.m.k. hv. þm. Pétur Blöndal, gagnrýnt neyslustýringarhugmyndina sem liggur að baki háum sköttum og háum vörugjöldum á óhollum vörum. Hv. þingmenn Pétur Blöndal og Birgir Ármannsson stóðu hins vegar frammi fyrir því einstaka tækifæri fyrir aðeins örfáum mánuðum, nánar tiltekið í desember, að greiða atkvæði með afnámi vörugjalda á öllum matvælum. Samfylkingin ein flokka lagði fram tillögu um að öll vörugjöld yrðu lækkuð eða afnumin af öllum matvælum. Þetta felldu hv. þingmenn sem í þessum þingsal hafa haft á orði að þeir aðhyllist ekki neyslustýringu, enda er það þá sérkennilegt að þeir slái sér á brjóst og gagnrýni hv. þm. Ögmund Jónasson sem þó er samkvæmur sjálfum sér. Hv. þm. Pétur Blöndal talar um að hann sé á móti neyslustýringu með skattlagningu, en þegar hann fær tækifæri til að sýna það í verki kýs hann neyslustýringuna eins og flokkur hans.

Ef við snúum þessu yfir á aðra þingmenn stjórnarflokkanna sem telja að neyslustýringin með skattlagningu virki — nokkrir þingmenn stjórnarliðsins töldu það rétta stefnu og greiddu þar af leiðandi atkvæði gegn tillögu Samfylkingarinnar um að lækka vörugjald á öllum matvælum. Það er sérkennilegt að þeir sömu þingmenn styðji frumvarp um að lækka vaskinn á óhollu vörunum. Þeir eru líka í mótsögn við sjálfa sig. Annaðhvort aðhyllist fólk neyslustýringarrökin eða ekki. Það gengur ekki að fólk geri það stundum en stundum ekki. Allir þingmenn stjórnarliðsins eru í bullandi mótsögn við sjálfa sig og eftir standa þingmenn Samfylkingarinnar og þingmenn Vinstri grænna sem þó eru á öndverðum meiði hvað þetta varðar. Við höfum þó haldið sjó og kúrs og verið samkvæmir sjálfum okkur.

Það væri afskaplega upplýsandi að fá hæstv. heilbrigðisráðherra í salinn og fleiri þingmenn sem vildu halda uppi háum vörugjöldum á hinum svokölluðu óhollu vörum á forsendum neyslustýringar. Það væri fróðlegt að fá þá til að ræða af hverju þeir vilji lækka vaskinn á óhollum vörum en ekki vörugjöldin. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er í húsinu eða var það og hann á næsta mál á dagskrá. Ég sá líka hæstv. fjármálaráðherra í hliðarsölum áðan og það væri mjög gagnlegt að fá hann í þessa umræðu í ljósi þeirrar spurningar sem ég varpaði fram um tollamál. Þau mál eru að mínu mati í fullkominni óvissu.

Að lokum vil ég ítreka að Samfylkingin vill ganga lengra þegar kemur að lækkun matvælaverðs. Við viljum ganga allt að helmingi lengra en ríkisstjórnin. Við erum ekki tilbúin að sætta okkur við að almenningur á Íslandi þurfi að borga eitt hæsta matvælaverð í heimi. Við erum búin að fá nóg af því. Við höfum bent á leiðir til að lækka matarverðið, fella niður vörugjöldin, lækka vaskinn, endurskoða tollana. Það eru allt leiðir sem munu lækka matarverð og bæta hag allra Íslendinga og ekki síst þeirra sem bera minnst úr býtum. Það þurfa jú allir að kaupa í matinn. Það er hluti af lífskjarapólitík okkar að lækka verðið. Við erum að gæta hagsmuna almennings, gæta hagsmuna neytenda. Við munum að sjálfsögðu reyna að halda áfram að berjast fyrir lækkuðu matarverði. Það er óásættanlegt að íslenska þjóðin þurfi að sætta sig við að greiða eitt hæsta matarverð í heimi. Sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem tekur við af henni hafa að okkar mati tæki til að lækka verð á matvælum.