133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við fengum hér útlistanir á afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar, (Heilbrrh.: Og stjórnarflokkanna.) og stjórnarflokkanna. En ég var að spyrja um afstöðu og ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra. Stofnun sem undir ráðherrann heyrir hefur ráðlagt Alþingi og stjórnvöldum að falla frá þessum áformum og ég hef lagt fram fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs breytingartillögu í þá veru. Ég spyr hvernig hæstv. ráðherra réttlæti það að ríkisstjórnin hunsi ábendingar stofnunar sem hún og Alþingi settu á laggirnar árið 2003 til þess að ráðleggja okkur. Hér fáum við eindregnar ráðleggingar og þá eru þær að engu hafðar.

Hæstv. ráðherra er að segja okkur að ríkisstjórnin sé að reyna að fara einhverja millileið í þessum málum. Ríkisstjórnin er ekki að fara neina millileið. Staðreyndin er sú að gosdrykkir og sykraðir drykkir eru að lækka mest allra vörutegunda sem lækka núna við breytingar á virðisaukaskattslögunum og afnámi vörugjalda á matvöru hinn 1. mars. Lýðheilsustöð er að vara við þessu, færir fram ítarleg rök og vitnar í ítarlegar rannsóknir máli sínu til stuðnings. Þess vegna skal ég eiga þetta við Samfylkinguna hvað hún hugsar og Frjálslyndir hvað þeir hugsa, ég er að spyrja hæstv. ráðherra, hvernig hún réttlætir það að hunsa með öllu ábendingar, ráðleggingar og áskoranir frá Lýðheilsustöð sem hefur það lögboðna verkefni með höndum að ráðleggja stjórnvöldum hvað varðar (Forseti hringir.) manneldismál.