133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er ákveðin afstaða fólgin í spurningunni sjálfri: Hefur ráðherra von um að Ísland geti uppfyllt skilyrði um aðild að Evrópusambandinu? Ég vil láta það koma fram að ég er ekki áhugamaður um að Íslendingar verði aðilar að Evrópusambandinu og tel ekki að Íslendingar eigi sérstaklega að keppa að því að uppfylla einhver skilyrði sem aðrir setja.

Við eigum fyrst og fremst að uppfylla okkar eigin skilyrði um efnahagsstjórn og markmið um stöðugleika í verðbólgu, vöxtum og gengi. Við getum sett okkur þau skilyrði og uppfyllt þau af eigin rammleik alveg eins og menn geta af eigin rammleik látið þetta misfarast, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert á undanförnum árum. Það hefur verið algjörlega hennar eigið verk að koma málum svo fyrir að hér hefur skapast mjög mikil þensla í þjóðfélaginu með tilheyrandi verðbólgu sem kostar heimilin í landinu stórfé á hverju ári. (Forseti hringir.)