133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

hækkun raforkugjalda.

563. mál
[13:36]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem eftir stendur er að íbúar á landsbyggðinni voru einfaldlega blekktir við setningu nýrra raforkulaga, þeir voru blekktir og búsetuskilyrðin á viðkvæmustu svæðum dreifbýlisins versnuðu. Þetta stendur eftir við svar hæstv. iðnaðarráðherra og þetta stendur eftir við innleiðingu hinna nýju laga, menn skulu viðurkenna það. Hv. fyrirspyrjandi, Kristján L. Möller, hefur með spurningu sinni og svari hæstv. iðnaðarráðherra afhjúpað skollaleikinn í kringum þetta. Staðreyndin er sú að íbúarnir voru blekktir og búsetuskilyrðin á þeim svæðum sem eru erfiðust og viðkvæmust einfaldlega versnuðu. Þetta stendur eftir.

Þá er spurningin: Hvernig á að bæta þeim leikinn? Á að láta íbúa dreifbýlisins standa áfram undir niðurgreiðslu á tombóluverði til stóriðjunnar eða á að leyfa þeim að njóta afskrifaðra virkjanamannvirkja og háspennulína eins og talað var um áðan? (Forseti hringir.) Því verður hæstv. ráðherra að svara.