133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[16:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er af og frá að ég eða Samfylkingin munum leggja einhver vopn til hliðar eða slíðra vopn þegar annars vegar er barátta um bætta hagsmuni neytenda. Það eina sem ég er reiðubúinn til að leggja til hliðar í málinu er Framsóknarflokkurinn.

Í máli hæstv. ráðherra kom skýrt fram að hann hefur ekki hundsvit á því hvað þau lög sem taka gildi á morgun muni hafa í för með sér. Við erum sammála um það að þetta muni örugglega lækka matarverð en hins vegar veit hann ekki hversu mikið og hann treystir sér ekki til að halda því fram að það muni lækka verðið jafnmikið (Gripið fram í.) já, ég veit það — og í haust. Þá sagði hann 16%. Ég segi núna: Í mesta lagi 8%, hugsanlega 6%.

Ég vil þó aðeins í lokin hnykkja á því sem ég sagði um þessa sáru minnimáttarkennd hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir íslenskum bændum. Hæstv. ráðherra kemur hér og talar um hina ilmandi lambakjötslykt sem lagði yfir Reykjavík og talaði um það sem besta hráefni í heiminum. Það er besta hráefni í heiminum. En ef svo er, af hverju getur það ekki alveg eins og bestu tómatar í heiminum keppt við innfluttan varning? Auðvitað getur það það, reynslan segir það og skynsemin. En það virðist sem hvorugt eigi heima í landbúnaðarráðuneytinu nú um stundir. Og það virðist sem hæstv. landbúnaðarráðherra trúi ekki dómi reynslunnar eins og við höfum séð hann birtast varðandi framleiðslu á tómötum og agúrkum. Sala á tómötum hefur fjórfaldast síðan sú breyting var gerð, sala á agúrkum margfaldast og verðið hefur lækkað um 30%. Af hverju? Af því að innlenda framleiðslan er að keppa í krafti gæða. Ef það er hægt í grænmetisframleiðslunni, af hverju þá ekki varðandi sauðakjötið? Er þá ekkert að marka það sem hæstv. ráðherra er að segja um hina gríðarlegu möguleika (Forseti hringir.) íslensks lambakjöts úti um allan heim? Eða getur verið, herra forseti, (Forseti hringir.) að ekkert sé að marka hæstv. ráðherra?