133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:02]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði bara að vekja athygli á því í þessari umræðu sem hefur staðið frá því um ellefuleytið að þetta var fyrsti ræðumaðurinn, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem kom aðeins örlitla stund í ræðu sinni inn á efni frumvarpsins, hann ræddi aðeins um fyrirhleðslur (Gripið fram í.) og það var mjög ánægjulegt. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við vinstri græna, eins og ég sagði í fyrra andsvari, við erum nefnilega að ræða mikið umhverfismál og það kemur mér á óvart að vinstri grænir skipti sér ekki af málinu, þeir svari ekki spurningum og láti sig þetta einu gilda. Það sem sem við erum að fjalla um í þessu frumvarpi er með stærri umhverfismálum, ekki bara breytingin milli ráðuneyta heldur það hlutverk sem fyrirhleðslurnar þjóna, þær þjóna miklu hlutverki. Við þekkjum það á Suðurlandi, þar höfum við breytt ónýtu landi, landi sem ekki er hægt að nota til nokkurra hluta í besta ræktunarland landsins og ég er að tala um bæði fyrirhleðslur í Þykkvabænum og Landeyjunum.

Það væri mjög ánægjulegt og hefði verið skynsamlegt hjá vinstri grænum að gefa sér örlítinn tíma til að ræða umhverfisþátt þessa frumvarps en tala ekki eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerði áðan með tómum útúrsnúningum. Mér finnst skorta á, eins og ég hef sagt áður, að vinstri grænir ræði umhverfismál þegar þau eru rædd í frumvörpum sem þessu. (Gripið fram í: Þingmaðurinn er alveg laus við útúrsnúninga.)