133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var alveg með ólíkindum að hlusta á þann blekkingavaðal sem kom áðan frá formanni Framsóknarflokksins, staðgengli hæstv. utanríkisráðherra. Hann segir að þessi listi sé ekkert annað en fréttatilkynning frá Hvíta húsinu og hafi í raun og veru ekkert lögformlegt gildi. Ég er með þennan lista fyrir framan mig. Þetta er útskrift upp á sex síður og tekin af heimasíðu Hvíta hússins þar sem þessi listi er enn þá. Ég prentaði hann út sjálfur þann 14. febrúar sl. Hér eru 42 þjóðir skráðar við „Statement of Support from Coalition“, stuðningsyfirlýsingar frá samherjum. (Gripið fram í.) Þar á meðal er Ísland og það er þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson sem sendi þessa yfirlýsingu þann 18. mars 2003 til Hvíta hússins. Yfirlýsingin er síðan birt af Hvíta húsinu 26. mars, sex dögum eftir að innrásin hófst. Tveimur dögum áður en innrásin hófst kom yfirlýsing frá forsætisráðherra Íslands þar sem því var lýst yfir að Bandaríkin teldu öryggi sínu ógnað vegna árása frá hryðjuverkamönnum og öðrum og hér er líka talað um að Íslendingar lýsi þeim stuðningi að Bandaríkjamenn megi nota íslenska lofthelgi, flugvöllinn í Keflavík og að Íslendingar muni einnig taka þátt í svokallaðri uppbyggingu eftir að stríðinu ljúki.

Við vitum sem er, virðulegi forseti, að þessu stríði er enn hvergi lokið. Þetta er engin fréttatilkynning. (Gripið fram í: Vissulega.) Þetta er engin fréttatilkynning, þetta er stuðningsyfirlýsing frá 42 þjóðum, og stuðningsyfirlýsingin frá Íslendingum er enn í fullu gildi, hún hefur hvergi verið dregin til baka, hún hefur aldrei verið hörmuð þrátt fyrir það sem við höfum séð gerast í Írak eftir að þetta viðbjóðslega stríð hófst, þrátt fyrir að við vissum mörg hvernig lá í eðli hlutanna áður en stríðið hófst. Það þurfti enga stóra snillinga (Forseti hringir.) til að sjá það og ég mun fara yfir það í ræðu minni á eftir, virðulegi forseti.