133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:07]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ríkisstjórn Íslands sem skuldbatt Íslendinga alla, ríkið, landið, alla þjóðina með pólitískum stuðningi sínum við innrásina í Írak. Það var ekkert öðruvísi. Það skiptir engu máli hvort út var gefin fréttatilkynning eða eitthvað annað frá Hvíta húsinu, það er ekki undankomuleið Framsóknarflokksins í þessu máli hvað pappírinn nákvæmlega hét. Það breytir því ekki að ríkisstjórn Íslands veitti innrásinni sinn fulla pólitíska stuðning. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni. Og sá stuðningur var fyrir hendi þangað til fyrir nokkrum mánuðum eða vikum. Síðast þegar við ræddum utanríkismál á hinu háa þingi varði hæstv. utanríkisráðherra stuðninginn við innrásina með kjafti og klóm. Um það bil tveim vikum síðar höfðu framsóknarmenn séð að sér, en þá höfðu þeir varið innrásina í (Forseti hringir.) þrjú og hálft ár.