133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá málflutningur, að tillaga á Alþingi um að menn afturkalli með formlegum hætti stuðning sinn við þessar aðgerðir, sem var gefinn ranglega og með ólögum af hálfu ríkisstjórnar Íslands eða tveggja ráðherra fyrir hennar hönd og að menn lýsi því yfir að þetta hafi verið mistök, hafi eitthvert réttargildi gagnvart stuðningsyfirlýsingunni eins og hún er meðhöndluð og birt í Bandaríkjunum er nú einhver langsóttasta túlkun sem ég hef á ævi minni heyrt. Eða heldur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra virkilega að það umsnúi málinu ef fjallað er um það með þeim hætti á Alþingi Íslendinga? Það er auðvitað fjarri öllu lagi og þarf ekki frekari rökræðna við.

Auðvitað voru tilraunir Bandaríkjamanna við að safna sjálfstæðum ríkjum á lista sem stuðningsaðilum aðgerðanna viðleitni til að þeir stæðu ekki jafnberskjaldaðir gagnvart alþjóðasamfélaginu með brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna á bakinu þegar þeir ákváðu að gefast upp á að fá nýja ályktun í gegnum öryggisráðið og ráðast samt á Írak, eins og þeir höfðu ætlað sér lengi. Þess vegna er þessum hópi safnað saman, til að reyna að segja að svo mikill pólitískur stuðningur sé við innrásina í alþjóðasamfélaginu hvort sem er.

Við getum gefið orðavali okkar og ummælum allar þær einkunnir, frú forseti, sem við viljum. Það mun engu breyta um að Framsóknarflokkurinn flýr ekki hinn efnislega veruleika í þessu máli. Hvort sem ég er stórorður eða ekki þá er hinn efnislegi veruleiki eins og hann er, að Framsóknarflokkurinn hefur ekki haft mátt til þess að biðjast afsökunar á að standa að þessum grófu brotum á alþjóðalögum og standa að þeirri dæmalausu aðgerð sem leitt hefur til ástandsins í Írak, það er allt efnislegur veruleiki.