133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:59]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hér talaði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, vinur minn og flokksfélagi hátt í níu ár, og nú er allt annað andlit á honum en var, vil ég hræra upp í minni hv. þingmanns.

18. mars árið 2003 var hann einn af þingmönnum Framsóknarflokksins. Fyrir kosningabaráttuna gerði Halldór Ásgrímsson mjög vel grein fyrir ákvörðun sinni sem Kristinn H. Gunnarsson meðtók á þeim tíma. Kristinn H. Gunnarsson gekk til kosninga 2003, glaðbeittur fyrir Framsóknarflokkinn og hlaut kosningu og var í Framsóknarflokknum þrjú ár til viðbótar.

Framsóknarflokkurinn gekk í gegnum kosningar. Þetta mál þróaðist auðvitað mjög illa á síðustu tveimur, þremur árum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sat líka á flokksþingi Framsóknarflokksins í ágúst, að ég ætla, og fagnaði þá ummælum Jóns Sigurðssonar, nýs formanns Framsóknarflokksins, sem var að gera þetta mál upp fyrir hönd framsóknarmanna. Niðurstaða þingsins var að fagna þeirri skoðun, þeim ummælum og þeim heiðarleika sem fram kom í ummælum Jóns Sigurðssonar og hafði reyndar áður komið fram í ummælum Halldórs Ásgrímssonar, að hefði hann haft allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir hefði þessi ákvörðun ekki verið tekin. Hann og nýr formaður Framsóknarflokksins hafa því gert það upp fyrir hönd flokksins að þetta hafi verið mistök.

Nú auðvitað er hér allt annar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem er orðinn frjálslyndur og farinn til hægri í pólitík og talar með allt öðrum hætti en hann bjó við í rauninni þessi fjögur ár í Framsóknarflokknum eftir að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, tóku þessa ákvörðun tveir.