133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:17]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég rakti hef ég sannfæringu fyrir því að í fyrsta lagi muni útflutningsskyldan ekki standast horft til framtíðar út af alþjóðasamningum. Í öðru lagi er hún truflandi hvað samkeppnislög varðar. Í þriðja lagi hef ég þá reynslu að þegar útflutningsskylda var hér orðin hátt í 40% fór ég eitt árið, árið 2002, ekki að tillögu Bændasamtakanna og markaði þar 26 eða 27% útflutningsskyldu. Það var eins og við manninn mælt, lambið fór að seljast á nýjan leik af miklu meiri þrótti.

Það varð að takast á við hvíta kjötið á markaðnum. Þessum breytingum er mætt í þessum samningum þannig að það er komið til móts við bændur í þeim efnum. Ég trúi því, hv. þingmaður, að þetta verði eingöngu til þess að styrkja þessa mikilvægu atvinnugrein, efla hag hennar og tryggja að lambið standist samkeppni heima og víki ekki af markaðnum. Mörg rök mæla sem sagt með því fyrir utan hitt að ef menn hugsa að landbúnaðarráðherra hafi þá skyldu að vera nokkurs konar frystihússtjóri fyrir eina búgrein hvað þetta varðar held ég að það gangi ekki upp í samtímanum. Nú fá menn aðlögun til þess að þetta breytist og útflutningsskyldan verður farin út að fullu hinn 1. júní 2009.

Bændurnir sýndu það í verki í atkvæðagreiðslunni, þeir studdu samninginn 90%, að þeir eru sáttir við þessa niðurstöðu. Hvenær á að gera slíkar breytingar ef á að gera þær? Akkúrat á þessum tímapunkti þegar útflutningsskyldan er sú lægsta sem hún hefur verið í áratugi vegna neyslu innan lands, undir 10% eins og hún var hér í haust, allt niður í 4%.