133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru nú ekki Evrópa og Ameríka einar sem leika sér að skilgreiningum í WTO. Ég minni hv. þingmann á að við skilgreinum okkar eigin framleiðslustyrki sem grænar greiðslur. En ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli okkar á því hversu rúmar heimildir eru til þess innan Evrópusambandsins að beita ríkulegum stuðningi við bændur og byggðir á norðursvæðum eins og okkar en vísa því algerlega á bug að byggðir Evrópu á norðursvæðunum séu einhver auðn eftir þá stefnu.

Það hryggir mig hins vegar að heyra frá fjárlaganefndarmanninum Einari Oddi Kristjánssyni afstöðu hans til langtímasamninga vegna þess að auðvitað er út af fyrir sig hægt að gera einn og einn samning fram í tímann en hér er orðið um það að ræða að í heilum málaflokki, landbúnaðarmálum, hafa verið gerðir tveir stórir samningar sem binda fjárveitingavald Alþingis til sjö ára og gera það að verkum að í landbúnaðarmálaflokknum hefur næsta ríkisstjórn 2007–2011 ekkert fjárstýringarvald, hvorki hvað varðar mjólkuriðnað né (Forseti hringir.) sauðfjárrækt, og ég tel (Forseti hringir.) einfaldlega að hér sé allt of langt gengið í að skuldbinda Alþingi fram í tímann og í allt of ríkum mæli.