133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:53]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kom víða við í sinni ræðu sem er ekki óeðlilegt. Oft höfum við tekist á um þessi mál og rætt í þinginu. Ég vildi í upphafi lýsa yfir ánægju minni með að komin skuli fram frumvörp, bæði frá hæstv. fjármálaráðherra og samgönguráðherra, um alþjóðlega skipaskrá sem mjög hefur verið óskað eftir af hálfu samtaka stéttarfélaga sjómanna og útgerðar. Ég mun á eftir koma betur að þessu máli og fjalla ítarlega um hver þróunin hefur verið og stöðuna í dag.

En varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason talaði um, 11. gr. um mönnun skipa, þar sem hann vitnaði til átaka milli stéttarfélaga sjómanna og útgerðar á tilteknu skipi í Grundartangahöfn þá er það svo að orðalag skýringarinnar við 11. gr laganna er aðeins annað en orðanna hljóðan í lagatexta sömu greinar. Þar er talað um að útgerðinni sé heimilt að semja sérstaklega við viðkomandi sjómenn um kaup og kjör.

Nú er það svo að Alþjóðaflutningaverkamannasambandið ITF hefur fylgst mjög vel með skipum og skipaferðum í Evrópu. Það sendi fulltrúa sína þar um borð til að fylgjast með því að lágmarksgreiðsla væri innt af hendi og samningar gerðir á milli útgerðar og sjómanna sem kveða á um að meðallaun sjómanna í Evrópu sé notaður til grundvallar þess launataxta sem Alþjóðaflutningaverkamannasambandið miðar við. Það er mál sem kannski þyrfti að standa hér frekar en útgerðin geri samninga við sjómenn. Ef útgerð ætlar sér að reyna að greiða lægri laun heldur en Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur gengið frá þá fær það skip og útgerð þess hvergi frið í höfnum í Evrópu.