133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef maður reynir að ræða þetta mál málefnalega við hv. þingmann, sem ég hef iðulega gert tilraunir til, þótt það hafi komið fyrir lítið, mundi ég svara fyrri hluta ræðu hans á þá leið að ég hef einmitt verið mjög hugsi yfir því hvers vegna 1. gr. frumvarpsins er nú þannig sett saman að eingöngu er vitnað í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ef við skoðum niðurstöður auðlindanefndar er hún með í huga a.m.k. þrjár meginreglur stjórnskipunar landsins, þ.e. jafnræðisregluna, atvinnufrelsið og vissulega einkaeignarréttinn. Hér er hins vegar valin sú leið að vitna aðeins í eina þeirra. Það má spyrja sig hvers vegna. Hefur það lagalegt gildi, hefur það þýðingu að sú leið er valin? Það má velta því fyrir sér ef jafnframt hefði verið vitnað í 75. gr. eða hverjar þær eru, hinar greinarnar, þá hefði málið verið í meira jafnvægi milli þeirra þátta þarna í stjórnarskipuninni sem þarf að leita jafnvægis gagnvart, þ.e. jafnræði þegnanna, atvinnufrelsið og eignarréttur. Sú leið er ekki valin hér.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða, virðulegur forseti, við hv. þingmann um eitthvað sem hann kallar örvæntingu stjórnarandstöðunnar. Ef einhver á að vera í örvæntingu í þessu máli er það auðvitað ríkisstjórnin, enda er hún það. Ég hef satt best að segja ekki alllengi orðið vitni að aumkunarverðari tilburðum í pólitík en þeim þegar ríkisstjórnin og einstakir þingmenn reyna nú að leita skjóls á bak við stjórnarandstöðuna í þessu máli og reyna að varpa ábyrgðinni á þessum vinnubrögðum af herðum sér yfir á stjórnarandstöðuna. Höfum við eitthvað með það að gera? Er þetta ekki (Gripið fram í: Auðvitað.) ríkisstjórnin? Eru þetta ekki flutningsmennirnir? (Gripið fram í.) Er það þá svona hroðalega alvarlegur hlutur að bjóða hæstv. landbúnaðarráðherra upp? Ég held að hann ætti þá ekki að fara á dansleiki oftar á ævinni. (ISG: Hvað þá …)