133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:15]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Ég vil, frú forseti, fyrst vekja athygli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á því að í athugasemdunum með frumvarpinu er beinlínis verið að vísa til skýrslu auðlindanefndarinnar. Það er umfjöllun í athugasemdunum um galla við það að nota heitið „sameign þjóðarinnar“ og rök eru færð fyrir því að nota heitið „þjóðareign“ og m.a. vísað til skilnings og þess sem lá til grundvallar niðurstöðu auðlindanefndar sem lýtur að heitinu „þjóðareign“. Vegna þessarar tilvísunar til viðbótar þeim texta sem er í frumvarpinu sjálfu sé ég ekki annað en að það sé eðlilegt að fylla út ákvæðin með þessu. Það er hægt að koma þeim skýringum að í nefndaráliti með frumvarpinu og ég sé ekkert því til fyrirstöðu.

Hins vegar varðandi það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á áðan, að talað væri um að náttúruauðlindir Íslands skyldu vera þjóðareign og síðan segir „þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila skv. 72. gr.“, er þar vitaskuld verið að vísa til bæði beinna og óbeinna eignarréttinda eins og hér hefur verið kallað eftir í umræðunni. Við værum ekki að tala um þjóðareign á hvers konar eignum, yrðum að undanskilja einkaeignarréttindi og það er beinlínis gert með þessari tilvísun hér í 72. gr. vegna þess að hún verndar ekki bara beinan eignarrétt, hún verndar líka óbeinan eignarrétt og mér heyrist að það hafi verið það sem vantaði upp á að við hv. þingmaður skildum hvort annað í þessari umræðu.