133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

áform um breytt rekstrarform Iðnskólans í Reykjavík.

[13:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin þó að ég sé svo sem ekki alls kostar ánægð með þau. Mér þykir það miður að sjálfstæðismenn skuli ævinlega telja það vera sáluhjálparatriði að eina leiðin til þess að gera einhverjar breytingar í menntakerfinu sé að einkavæða. Það virðist vera sáluhjálparatriði hjá sjálfstæðismönnum að iðnnámið sé sett inn á þessa braut.

Úr því að menntamálaráðherra lýsir því yfir að hún hafi tekið formlega ákvörðun um að stofna starfshóp um þetta mál þá vil ég segja að á meðan staðan er sú að ungt fólk sem er þess fýsandi að fara í iðnnám á þess ekki kost að eiga val á iðnnámi nálægt heimabyggð sinni, stór hluti þess fólks þarf að sækja námið langt, þá finnst mér ekki réttlætanlegt að hið opinbera ætli að firra sig þeirri ábyrgð sem það hefur hingað til borið á iðnnáminu og færa starfsemina í hendur einkaaðila.

Virðulegi forseti. Mér finnst skorta menntapólitík og menntastefnu í orð hæstv. menntamálaráðherra. Það er eins og hér sé tilraunastarfsemi í gangi og úr því að einhverjir eru tilbúnir til að taka við Iðnskólanum, einhverjir einkaaðilar og samtök úti í bæ eru tilbúin að taka við Iðnskólanum, sem hefur verið sveltur af þessum sömu stjórnvöldum árum saman, því að Iðnskólinn hefur verið að knýja á um leiðréttingar og lagfæringar á ýmsum málum sem lúta að fjárveitingum til skólans, þá finnst mér það óforsvaranlegt, hæstv. forseti, að menntamálaráðherra skuli láta þetta gerast og láta sér vel líka án þess að nokkur menntapólitísk sé tekin afstaða í þessum málum.

Í kraftmikilli ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sagði hún að Tækniháskólinn, sem eðli máls samkvæmt var fagháskóli, hafi verið lagður niður og nú eigi að stofna nýjan skóla. Þetta sýnir auðvitað í hnotskurn skort á menntastefnu, skort á menntapólitík og meðvitund hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar varðandi iðnnámið. Það er því löngu, löngu orðið tímabært að linni, hæstv. forseti, og ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa sagt að við getum varla beðið vorsins að fá nýja ríkisstjórn í stólana.