133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og augljóst er fjallar þetta frumvarp um metangasbíla en ekki um tvinnbíla en þar er auðvitað talsverður munur á um hvers konar bifreiðar er að ræða.

Annars vegar erum við að nýta hauggasið sem verður til hjá okkur og er í sjálfu sér hættuleg lofttegund vegna gróðurhúsaáhrifa og síðan sparar það okkur auðvitað að brenna öðru eldsneyti og losunin verður þannig minni.

Tvinnbílarnir ganga alla vega flestir fyrir hefðbundnu bensíni og svo framleiða þeir sjálfir rafmagn sem þeir hlaða á geyma og nýta síðan meðan það endist. Þeir eru út af fyrir sig allra góðra gjalda verðir en ég held að þeir hafi sem slíkir ekki sömu jákvæðu umhverfislegu áhrifin sem við erum að reyna að ná með því að ýta undir notkun á metangasbílum. Ég á hins vegar von á því að á síðari stigum í vinnslu þeirrar stefnu sem unnið er að á vegum ríkisins muni tvinnbílarnir koma inn í þá umræðu.

Tvinnbílarnir nýta, eins og ég segi, bæði hefðbundna eldsneytisgjafa og svo framleiða þeir orku. Þeir framleiða orkuna þegar þeir hemla og það gerist frekar í styttri ferðum. Hins vegar þegar þeir eru í langkeyrslu og búnir að nýta rafmagnið brenna þeir að mestu leyti hefðbundnum eldsneytisgjöfum.