133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:57]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir margt sem kom fram í máli hennar en ég vil hvetja þingmanninn til að fara rétt með. Mér finnst það afskaplega ósanngjarnt ef hv. þingmaður ætlar að tala af einhverri einurð um umhverfismál að fara ekki rétt með. Það fyrsta sem nýr meiri hluti gerði í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var að setja umhverfismál á oddinn. Síðan hefur verið unnið markvisst að því. Það var ekki gert áður hjá Orkuveitu Reykjavíkur eða fyrirrennurum hennar í tíð R-listans. Það var mjög margt gott gert í umhverfismálum, bæði hjá Orkuveitunni og fyrirrennurum hennar, enda afskaplega umhverfisvæn fyrirtæki. Eina fyrirtækið á landinu, mér vitanlega, sem er með mælanleg markmið við að kaupa inn vistvæna bíla er Orkuveita Reykjavíkur.

Hvenær var það gert? Það var gert undir forustu sjálfstæðismanna alveg á sama hátt og var farið í það, áður en það varð lögbundið verkefni, að hreinsa strandlengjuna í tíð sjálfstæðismanna. Á sama hátt og farið var í að gera göngu- og hjólreiðastíga í tíð sjálfstæðismanna. Á sama hátt og menn fóru út í útivistarsvæðin, hvort heldur það var Elliðaárdalur eða Heiðmörkin eða það síðasta sem er Úlfljótsvatn, sem við björguðum frá fyrirætlunum R-listans um að koma þar upp frístundabyggð með 600 bústöðum.

Þetta eru staðreyndir og þarna er munurinn á því að framkvæma eða bara tala. Ég hvet hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur til að kynna sér þessi mál og fara að ekki að blanda saman ISO-stöðlum og mælanlegum markmiðum við að setja bílaflota fyrirtækisins yfir á vistvænt eldsneyti, ekki rugla því saman. Enginn heldur því fram að ekki hafi einhvern tímann verið gert eitthvað gott á þessum 12 árum hjá vinstri mönnum en það liggur alveg hreint og klárt fyrir (Forseti hringir.) hvenær fyrirtækið hóf að setja áherslur númer eitt, tvö og þrjú (Forseti hringir.) á umhverfismálin.