133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[15:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða hérna mjög alvarleg mál sem eru afleiðingar hlýnunar á umhverfið okkar og á heiminn. Við erum að ræða til hvaða aðgerða við getum gripið til þess að sporna við. Við vitum að þær loftslagsbreytingar sem eru orðnar sýnilegar nánast hvar sem er verða ekki stöðvaðar og tími til athafna er núna. Þess vegna eigum við ekki að eyða orku okkar hér í það hvað einhver vildi gera einhvern tímann. Það þarf að gera hlutina núna.

Þess vegna erum við auðvitað að ræða það við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann leggur hér fram ágætisfrumvarp um að breyta eða lækka vörugjald á bifreiðum sem nýta metangas, að verulegu leyti, í stað bensíns eða dísilolíu a.m.k. tímabundið, og vitnar í greinargerð með því máli til nýsamþykktrar stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum þar sem kveðið er á um að grípa skuli strax til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Og bendir á þá leið sem hann leggur til í þessu frumvarpi. En það verður að segjast eins og er að ekki er verið að gera mikið. Þetta er pínulítið skref en við vitum að við verðum að vera mun róttækari í aðgerðum okkar.

Ég benti á það áðan í andsvari við hæstv. ráðherra að ekki þarf síður að taka á sparneytnum bifreiðum. Orkusparnaðurinn er áhrifaríkastur gegn loftslagsbreytingum. Það er orkusparnaðurinn sem skilar sér. Við vitum að alvarleg teikn eru á lofti í umhverfismálum. Jöklarnir eru að hopa þrisvar sinnum hraðar en á 9. áratugnum. Yfirborð sjávar hækkar og það ku vera um það fréttir, ég held í fyrrakvöld, að yfirborð sjávar væri að hækka mun meira en menn gerðu ráð fyrir vegna þess að jöklarnir á skautunum bráðna mun hraðar en vísindamenn höfðu áætlað. (PHB: Ekki á norðurskautinu.) Á suðurskautinu aðallega en það er einnig á norðurskautinu.

Það er að brotna frá stór íshella á suðurskautinu sem er verulegt áhyggjuefni, ef ég vitna í fréttaflutning af því ég er náttúrlega ekki sérfræðingur í þessum málum og hlusta bara á það sem vísindamenn segja. Það að íshellur séu að brotna frá stórum ísmassa gerir það að verkum að skriðjöklar eiga auðveldara með að renna í haf fram og bráðnun eykst mun meira.

Hver skýrslan á fætur annarri hefur komið fram undanfarið einmitt um þessi mál. Ég ætla að minna á Stern-skýrsluna og ACIA-skýrsluna sem var tekin fyrir hjá Norðurskautsráðinu á síðasta og þarsíðasta ári og við höfum fjallað mikið um í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs. Þar er verið að benda á mikilvægi þess að þjóðir heims bregðist strax við og dragi á allan hátt úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þó svo að við séum hér með hreinustu orkuna og hitum hús okkar með jarðhita verðum við engu að síður að bregðast við.

Hér er eitt lítið skref sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til. En við erum að hvetja til frekari aðgerða og bendum á tvinnbílana. Þeir bílar sem ég geri að umtalsefni eru bílar sem eyða eða menga helmingi minna en litlir fjölskyldubílar. Þetta eru bílar sem geta tekið eldsneyti hvar sem er á landinu vegna þess að þeir ganga fyrir bensíni en framleiða sitt eigið rafmagn meðan þeir keyra.

Allt þetta tal hæstv. ráðherra um að þeir eyði miklu bensíni þegar tekið er af stað eða bremsað er bara tóm vitleysa. Ég keyri á svona bíl á hverjum einasta degi. Þegar maður tekur af stað er yfirleitt keyrt á rafmagninu og það heyrist ekki nokkur skapaður hlutur í bílnum. Það er bara tóm della að halda hinu fram. Ég efast um að hæstv. ráðherra hafi nokkurn tímann keyrt á svona vistvænum bíl, á svona tvinnbíl. Ég hvet hann til að gera það og skipta yfir.

Ég veit að margir þeir sem hafa haft umhverfismálin í hávegum fögnuðu því þegar þeir heyrðu að fella ætti niður aðflutningsgjöld á metangas- og vetnisbílum til að stuðla að því að minnka útblástur á koltvísýringi. En þeir urðu jafnsvekktir þegar þeir heyrðu af því að ekki ætti það sama að gilda um vistvænar bifreiðar sem hefur náðst góður árangur um, tvinnbílana sem hafa gefist mjög vel hér á landi. Ég tek undir það. Ég varð fyrir verulegum vonbrigðum og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra ætli að láta frumvarpið verða að lögum án þess að taka þá leið inn í frumvarpið, þ.e. að lækka vörugjöldin, aðflutningsgjöldin af tvígengisbílunum þannig að sama gildi um það. Því ef svo er verður náttúrlega að segja eins og er að stefna ríkisstjórnarinnar og allt tal um að ríkisstjórnin ætli að grípa til ráðstafana til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er eins og hjóm eitt ef menn eru ekki tilbúnir að grípa til aðgerða sem fleiri geta notfært sér en þeir sem eru á höfuðborgarsvæðinu og ætla sér ekki að keyra út af því. Vegna þess að metan er ekki hægt að kaupa á bílana nema á einni stöð hér á höfuðborgarsvæðinu og hvergi annars staðar á landinu.

Við getum tekið sem dæmi að ef eigandi metangasbíls hygðist nú fara á bíl sínum til Norðurlanda þar sem hann ætti nú að geta keypt sér eldsneyti og keyrt um Norðurlöndin því þar er verið að gera átak í þessum efnum, þá kæmist hann ekki einu sinni á bílnum á Seyðisfjörð þar sem hann tæki ferjuna með bílinn yfir til Evrópu. Þannig er nú ástandið í þeim efnum. Þetta er því ákaflega lítið skref þó ég taki undir með hæstv. ráðherra að án efa muni sölustöðum metans fjölga þegar fleiri verða komnir á þá bíla. En það er ekki beint hvatning til almennings, þó verið sé að fella niður innflutningsgjöldin, að skipta yfir á þá bíla þegar menn vita að þeir geta aðeins keypt eldsneyti á bílinn á einum stað, og það er á höfuðborgarsvæðinu.

Ég nefndi í andsvari áðan þá miklu áherslu sem Norðurlöndin leggja á að nota vistvænt eldsneyti fyrir bifreiðar í ljósi þeirra aðgerða sem við verðum að grípa til til að sporna við áhrifum af loftslagsbreytingunum eða af gróðurhúsaáhrifunum. Þar hafa menn tekið undir þá áskorun frá Norðurlandaráði að verða við því að koma á bættara aðgengi að vistvænni orku og koma einnig með aðgerðir í þá veru að hagkvæmara verði að keyra eða ferðast án þess að menga eins og gert er í dag.

Ég nefndi áðan Boga Hansen, sem leggur ríka áherslu á það og bendir okkur Íslendingum á að nýta þá leið sem tvinn-bílarnir eru. Af því að ég var að vitna í fréttir um vistvæna bíla var einmitt verið að segja frá því í fréttum um helgina að nú væri að verða til sá möguleiki að þeir sem væru á þessum tvígengisbílum eða tvinnbílum gætu fljótlega ef ekki bara á næstu mánuðum nýtt bílana þannig að þeir gætu hlaðið þá rafmagni yfir nótt. Stungið þeim í samband og nýtt rafmagnið enn meira en nú er gert. Sérstaklega í ljósi þessa er mikilvægt að við tökum inn í frumvarpið lækkun á þeim vistvænu bílum sem ég nefndi.

Ég vil líka nefna það, virðulegi forseti, að Samfylkingin hefur í stefnu sinni um Fagra Ísland lagt mjög ríka áherslu á að lækka gjöld á vistvænum bifreiðum og þeim bifreiðum sem nýta vistvæna orku til að draga úr mengun á útblæstri á CO 2 . Ég geri ráð fyrir að fulltrúar okkar í efnahags- og viðskiptanefnd, sem munu fá málið til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu, muni leggja til breytingartillögu þar sem þessar bifreiðar verði teknar inn og fái sams konar meðferð og metangasbílarnir, því annað væri óeðlilegt.

Af því að ég var að tala um umræðuna um loftslagsbreytingarnar sem voru hér í vetur og nú í janúar á Norðurlöndunum þar sem Bogi Hansen benti á áhrif loftslagsbreytinganna á Norðurlöndunum, þá talaði hann t.d. um ýmislegt sem gæti haft áhrif á líf okkar á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum í ljósi þeirra breytinga sem óheftur útblástur af gróðurhúsalofttegundum gæti haft. Meðal annars nefndi hann mikla þurrka á stórum svæðum á jörðinni, eyðimerkurnar mundu færast til sem gerði það að verkum að óbyggilegt yrði á svæðum þar sem mjög fjölmennt er eða fjölbýlt í dag. Það mundi verka þannig að þeir sem gætu flust milli svæða mundu gera það og flytja norður eftir. Hann spáði því að fram undan væru mestu þjóðflutningar sem nokkurn tímann hefðu átt sér stað á jörðinni eftir að slíkar breytingar færu að aukast. Hann var með ákveðna framtíðarsýn sem var ekki beint fögur, sérstaklega sem sneri að þeim stöðum þar sem miklir hitar yrðu og hungursneyð. Nicholas Stern hefur líka bent á að við umræddar breytingar muni það hafa í för með sér að flóð og hækkandi yfirborð sjávar muni gera hundrað milljónir manna heimilislausar og bráðnun jökla muni valda vatnsskorti hjá einum sjötta mannkynsins.

Auðvitað er það hroðaleg tilhugsun að þetta skuli vera það sem blasir við komandi kynslóðum ef ekkert verður að gert. Þess vegna verðum við öll að leggja okkar af mörkum. Þess vegna verðum við á Íslandi að leggja það að mörkum að minnka útblástur bifreiða. Draga úr gjöldum á þær bifreiðar sem menga minnst. Þar nefni ég þessa tvígengisbíla eða tvinnbílana sérstaklega, af því ég þekki þá persónulega. Ef fleirum verður gefinn kostur á að keyra á slíkum bifreiðum verður minni útblástur og því minni áhrif gróðurhúsalofttegunda.

Mig langar að nefna fleiri atriði, en ég sé að tími minn styttist óðum, sem við þurfum að grípa til. Ég velti fyrir mér: Er hæstv. ráðherra — ég sé hann ekki hérna í salnum, virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hann hlýðir á mál mitt einhvers staðar annars staðar eða hvort hann nennir ekki að hlusta þegar konur eru að ræða hérna við hann um grafalvarleg mál.

(Forseti (SAÞ): Ráðherra er í húsinu.)

Hann er í húsinu, en er hann að hlýða á mál mitt? Það er spurningin. Því ég er auðvitað að taka til máls til að koma ákveðnum skilaboðum til hæstv. ráðherra.

Ég á ekki sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þannig að ég get ekki komið þessum sjónarmiðum mínum eða spurningum áleiðis til ráðherrans þar. Því nota ég nota tímann hér. (Gripið fram í: Formaðurinn situr hérna.) Ég sé að formaðurinn situr þarna en ég veit ekki hvort hann mun koma þessum athugasemdum til skila, ég vona það. Mig langar til að fá svar við því við 1. umr. málsins hvort hæstv. ráðherra hyggst grípa til aðgerða til að minnka áhrif umferðar á heilsu fólks og þar á ég við svifryksmengun sem hefur verið að plaga mjög verulega bæði höfuðborgarbúa og íbúa á Akureyri, eins og fréttir hafa bent á.

Talað hefur verið um að til að draga úr því ástandi ætti ef til vill að banna notkun nagladekkja eða skattleggja sérstaklega þá sem eru á nagladekkjum. Ég hefði gjarnan viljað, virðulegi forseti, fá svör við því hjá hæstv. ráðherra hvort hann væri með í bígerð einhverjar slíkar aðgerðir, einhverja slíka skattlagningu eða stýringu til að draga úr þeirri mengun sem svifrykið er.

Ég sat fund í borginni, í Hlíðahverfi, þar sem slíkrar mengunar gætir einna mest nú á dögunum. Þar var læknir sem er sérfræðingur í lungnasjúkdómum og fleiri sjúkdómum sem svifrykið veldur. Hann benti á hversu alvarleg þessi mengun væri og hún hefði m.a. í för með sér aukna tíðni á hjartaáföllum. Börn sem á Íslandi sofa úti og búa við hinar stóru umferðaræðar þar sem slíkrar mengunar gætir mest væru mörg hver með ýmsa öndunarkvilla. Börn á leikskólum sem standa nálægt þessum stóru stofnbrautum sem menga hvað mest ættu líka í öndunarerfiðleikum og það kæmi fyrir að ekki væri hægt að setja börn út að leika sér þegar ástandið væri sem verst bæði hér í borginni og á Akureyri. Ég hefði gjarnan viljað fá svör við því hjá hæstv. ráðherra í umræðunni hvort hann væri með einhver slík áform á prjónunum, að skattleggja slíkt.

Mig langar aðeins, af því að nú er tíma mínum senn að ljúka, að nefna atriði sem kom fram í umræðunni áðan um að við nýttum ekki allt það metangas sem við gætum hér á höfuðborgarsvæðinu, þyrftum að beita betri aðferðum við að nýta það. Í vetur gafst mér kostur á að skoða verksmiðjur sem nota sorp til metangasframleiðslu. Það var ótrúlega snyrtilegt að koma og skoða slíkar verksmiðjur. Þetta var í Lettlandi. Þær eru auðvitað víðar, bæði í baltnesku löndunum og á Norðurlöndunum, þar sem metangasið er nýtt.

En mig langar til að vara við einu sem kom einmitt fram í umræðunni um umhverfismálin á Norðurlandaráðsfundunum núna í janúar, sem var að sums staðar þar sem menn eru að nota þessa vistvænu leið, metangasið, til að keyra bifreiðar, þá væri verið að flytja það inn frá þróunarlöndum og það mengaði meira en það minnkaði mengun að flytja það langar leiðir frá Suður-Ameríku eða öðrum fjarlægum slóðum, auk þess sem það hefði ýmsan útblástur gróðurhúsalofttegunda í för með sér, bæði flutningurinn og vinnslan á því í öðrum heimsálfum.

Við þurfum því að huga að ýmsu í þessum efnum (Forseti hringir.) en ég hefði gjarnan viljað fá svör frá hæstv. ráðherra við spurningum mínum.