133. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2007.

almennar stjórnmálaumræður.

[19:53]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Gott kvöld, ágætu tilheyrendur. Ég vil byrja á því að taka undir samúðarkveðjur forseta Alþingis til ættingja og vina þeirra sjómanna sem fórust undan Vestfjörðum sl. nótt. Eins og forseti okkar sagði minnir þetta okkur á þau óblíðu náttúruöfl sem við höfum átt við að etja á Íslandi í árhundruð sem oft hafa krafist mikilla fórna en hafa líka fært okkur gott land til varðveislu, land sem hefur gert okkur að því sem við erum.

Það er komið að þinglokum, virðulegur forseti, og það er komið að lokum þessa kjörtímabils. Það liggur núna í loftinu krafa um breytingu í landstjórninni, krafa um áherslubreytingu, nýja sýn á samfélagið, nýja sýn á þau verkefni sem við stöndum andspænis.

Það verkefni sem setur mestan svip á þingheim núna við þinglok er boðuð breyting á stjórnarskránni. Þessi breyting á rót sína að rekja aftur til þess tíma sem fiskurinn í sjónum, þessari sameiginlegu auðlind íslensku þjóðarinnar, var úthlutað til útgerðarinnar án þess að byggðirnar, sjómennirnir eða landverkafólkið ætti þar nokkra hlutdeild að. Þá reis upp sú háværa réttlætiskrafa að bundið yrði í stjórnarskrá að enginn gæti slegið eign sinni á auðlindina, auðlindir þjóðarinnar mætti ekki láta af hendi með varanlegum hætti og þjóðin ætti að njóta arðs af þeim.

Nú er þessari réttlætiskröfu svarað með sjónhverfingu á lokadögum þingsins, sjónhverfingu þar sem stjórnarskráin er leiksoppur og þau grundvallargildi sem þjóðin hefur haft í heiðri í aldir. Það sama gerðist í Íraksmálinu árið 2003, það sama gerðist í fjölmiðlamálinu árið 2004, það eru grundvallargildi hjá þjóðinni sem eru höfð að leiksoppi. Stjórnvöld sem haga sér með þessum hætti lítilsvirða lýðræðið og þar með þjóðina.

Það er stundum sagt að það sé enginn munur á flokkum en í tillögu stjórnarflokkanna kemur einmitt fram sá grundvallarmunur sem er á þeim og Samfylkingunni. Verði tillaga stjórnarflokkanna að veruleika er í raun verið að stjórnarskrárbinda nýtingarréttinn á þjóðareign án nokkurra takmarkana, án þess að settar séu nokkrar varnir í stjórnarskrána gegn því að nýtingarrétturinn leiði í raun ekki til einkaeignarréttar.

Samfylkingin hefur alltaf boðað að auðlindir þjóðarinnar eigi að vera í þjóðareign, þær sem ekki eru á annað borð í einkaeigu. Samfylkingin hefur boðað að jafnræðisregla eigi að gilda þegar ákveðið er hverjir fái heimildir til að nýta þessar auðlindir. Slíkar heimildir séu með öðrum orðum veittar á réttlátan og sanngjarnan hátt gegn gjaldi sem rennur til þjóðarinnar. Í þessu máli takast nefnilega á tvær grundvallarhugsjónir í stjórnmálum liðinna alda, annars vegar jafnaðarstefnan sem hefur almannahagsmuni að leiðarljósi, og hins vegar einstaklingshyggjan sem gengur út frá sérhagsmunum.

Þrátt fyrir þetta, virðulegur forseti, og þrátt fyrir að það sé tekist hart á hér um stjórnarskrána þýðir það samt ekki það að ríkisstjórnin hafi ekkert gott gert. Hún hefur auðvitað gert margt ágætlega eins og allar ríkisstjórnir á öllum tímum. Ýmsar réttarbætur hafa náðst fram fyrir tilstuðlan stjórnarflokkanna, við skulum ekki horfa fram hjá því og við skulum ekki vanmeta það. Vandinn er hins vegar að pólitískt útsýni ríkisstjórnarinnar hefur verið mjög takmarkað. Hún hefur lagt alla áherslu á viðskiptalífið, á einkavæðinguna, á virkjanaframkvæmdir og á stóriðju og hún hefur ekki verið vakandi fyrir kjörum og líðan fólksins í landinu. Þar hafa safnast upp erfið vandamál og brýn úrlausnarefni sem þola enga bið.

Þetta hefur ekki gerst, virðulegur forseti, fyrir ásetning stjórnarþingmanna, það er ekki vegna þess að þeim gangi í sjálfu sér ekki gott til, þetta hefur gerst vegna andvaraleysis. Þetta eru vanrækslusyndirnar. Alvarlegustu vanrækslusyndirnar snúa að hópum sem veikast standa í okkar samfélagi, fólki sem býr í þeim byggðum sem hefur verið að blæða út smátt og smátt á umliðnum árum, þetta snýr að öryrkjum, þetta snýr að öldruðum og þetta snýr að börnum og unglingum þessa lands.

Við erum aftur og aftur minnt á það að um 400–600 aldraðir eru í brýnni þörf fyrir hjúkrunarheimili en komast ekki inn, fá ekki úrlausn sinna mála. Við erum líka minnt á það æ ofan í æ að 900 aldraðir búa núna á hjúkrunarheimilum og hafa ekki einu sinni sérherbergi eins og gerð er þó krafa um að unglingar hafi á heimavistarskólum. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, virðulegur forseti.

Við heyrum líka fregnir af því núna æ ofan í æ að talsverður fjöldi af okkar unga fólki og börnunum okkar eigi í verulegum vandræðum. Á síðasta ári bárust 4.000 tilkynningar um áhættuhegðun, um vímuefnaneyslu, um afbrot barna og unglinga. Til Barna- og unglingageðdeildarinnar leituðu 5.000 börn og unglingar. Þetta segir okkur að vandinn er verulegur, þetta er alvarleg staða. Þetta segir okkur það að á tímum mikillar athafnasemi, þenslu og gróða hafa stjórnvöld ekki sýnt því fólki ábyrgð og umhyggju sem okkur þykir þó vænst um, þ.e. foreldra okkar og börn. Þessar kynslóðir þurfa að eiga sér sterka málsvara í næstu ríkisstjórn og sá málsvari er Samfylkingin.

Samfylkingin sækir hugmyndir sínar og lausnir til hinnar norrænu jafnaðarstefnu sem hefur lagt grunninn að þeim velferðarsamfélögum sem standa öðrum samfélögum sterkari og framar, bæði hvað varðar réttlæti og samkeppnishæfni. Þessi samfélög höfum við Íslendingar verið að fjarlægjast í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Samfylkingin er flokkur jafnaðar og frelsis, við viljum öflugt velferðarkerfi en við viljum líka sterkt atvinnulíf, jafnræði atvinnugreina og heilbrigða samkeppni, af því að það er forsenda þess að lífskjör verði almennt góð í landinu. Það voru jafnaðarmenn sem áttu stærstan þátt í því að byggja upp velferðarkerfið á fyrri hluta síðustu aldar og nú þarf jafnaðarflokkinn Samfylkinguna til að endurreisa þetta velferðarkerfi.

Mikilvægasta verkefnið sem við stöndum andspænis er að uppræta þá hneisu sem felst í biðlistum aldraðra fyrir hjúkrun. Samfylkingin vill gera það strax. Á næstu tveimur árum þurfa að komast hér í notkun 300 ný hjúkrunarrými og það þarf að bæta verulega heimahjúkrunina þannig að fólkið geti búið heima sem lengst. Það þarf, virðulegur forseti, líka að tryggja að aldraðir og öryrkjar geti unnið og þeim sé gert kleift að vinna og þeim sé ekki refsað með því að skerða lífeyrinn þeirra ef þeir taka þátt í vinnumarkaðnum. Það þarf, virðulegur forseti, líka að draga úr skattlagningu lífeyrisgreiðslna hjá öldruðum sem er auðvitað ekkert annað en uppsafnaður ævisparnaður fólks.

Í atvinnulífinu þarf að auka skilning á því að börn eiga rétt á tíma foreldra sinna ekkert síður en fyrirtækin og aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld þurfa að vinna að því sameiginlega að draga úr lengd vinnutímans. Álagið á foreldra er of mikið og kröfurnar eru of miklar. Brýnast er þó að mæta þeim mikla fjölda barna sem býr við mikla óhamingju vegna geðraskana, vegna erfiðra aðstæðna og vegna vímuefnaneyslu. Sum þessara barna eru í bráðri hættu og það er íslensku samfélagi til vansæmdar að þau þurfi að bíða mánuðum saman eftir brýnni úrlausn sinna mála. Það á við í þessu máli eins og með hina öldruðu að Samfylkingin mun aldrei sætta sig við þetta ástand.

Það eru mörg stór verkefni á velferðarsviðinu sem bíða úrlausnar og það er vandasöm sigling fram undan í efnahagsmálum en þetta vex mér ekkert í augum, virðulegur forseti, því að ég er sannfærð um að það er mjög bjart fram undan í íslensku samfélagi. Við erum að fara inn í langvarandi hagvaxtarskeið og þá skiptir meginmáli að tryggja það að vöxturinn sé stöðugur og í jafnvægi og allir njóti góðs af honum. Vaxtagleðin má ekki verða til þess að landið sporðreisist, hún má ekki verða til þess að rífa niður stoðir samfélagsins og eyðileggja náttúruauðlegð landsins og fegurð. Við eigum að setja hagvexti á Íslandi þann ramma að hann byggi á virkjun hugaraflsins, góðri menntun, þekkingu á endurnýjanlegum orkugjöfum, sókn á alþjóðamörkuðum, fegurð og hreinleika landsins, jafnvægi milli landsbyggðar og höfuðborgar, og hagvöxturinn á líka að byggja á fallegu mannlífi þar sem við látum okkur hvert annað varða.

Virðulegur forseti. Í kosningunum í vor er kosið um framtíðina. Það verður kosið um það hvaða flokkur er best í stakk búinn til að takast á við þau fjölmörgu viðfangsefni sem bíða landsins okkar í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem fer mjög vaxandi á komandi árum, alþjóðlegri samkeppni ríkja. Það verður kosið um það hvaða flokkur hefur þá framsýni sem þarf við þær aðstæður. Það verður kosið um hvaða flokkur er best í stakk búinn til að tryggja sem mestan jöfnuð í lífskjörum fólks í landinu. Það verður kosið um hvaða flokkur hefur lausnir á mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna. Ég óttast ekki þann dóm. Ég er sannfærð um að það er mikil þörf fyrir frjálslynda, skynsama jafnaðarstefnu á Íslandi. Samfylkingin, jafnaðarflokkur Íslands, er tilbúin til að taka við stjórnartaumunum og endurreisa velferðarsamfélagið á Íslandi. — Ég þakka áheyrnina.