133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

þingstörfin fram undan.

[11:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eins og hér hefur komið fram eru 80 mál sett á dagskrá í dag. Samkvæmt þeirri starfsáætlun Alþingis sem gildir enn á þingi að ljúka í dag. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því ekki að það ætti neitt að breyta þinglokum þannig að það verður þá að skoðast sem óbreytt að þinglok eigi að verða í dag. Hæstv. forsætisráðherra var spurður og taldi ekki neinar breytingar þar á.

Hins vegar tilkynnti forsætisráðherra forseta þingsins að til stæði að kalla saman þingflokksformenn til að fara yfir dagskrána. Ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé ráð ef ljúka á þinghaldi í dag að gera nú þegar þinghlé og forseti og forsætisráðherra fari ásamt formönnum þingflokka yfir dagskrána og hvað sé brýnt að afgreiða, annað geti þá beðið sumarþings. Ef við ætlum við að ljúka þinginu í dag, eins og dagskráin segir til um, sýnist mér þörf á að fara yfir þessa dagskrá nú þegar.

Ég legg til við hæstv. forseta þingsins að gert verði nú þegar hlé á störfum þingsins, forsvarsmenn þingflokkanna kallaðir saman og farið yfir þessi mál eins og hér er ýjað að að standi til að gera.