133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:02]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú meira en að segja það að breyta um búskap. Það er meira en að segja það. Sauðfjárrækt á sér margra alda sögu á landi. Hún er búgrein með þannig rótum að þú haggar henni ekkert. Hún er ekki komin til af tilviljun. Hún er komin til vegna þess að íslensk náttúra hentar slíkri búgrein.

Íslenskir sauðfjárbændur eru þeir aðilar í dreifbýlinu sem hafa dýpstar ræturnar til landsins og eru því mesta viðnámið þegar svo stendur sem nú er og dreifbýlið stendur svo veikt sem dæmin sanna. Það er ekki hægt að taka landbúnaðinn og segja: Nú ætlum við að gera þetta einhvern veginn allt öðruvísi.

Til allrar hamingju hefur tekist og er að takast að setja á stofn loðdýrarækt sem ég hef mikla trú á að muni á komandi árum hafa umtalsverða þýðingu. En það gerist ekki eins og hendi sé veifað. Þetta er búgrein sem krefst gerhygli og kunnáttu. Það gerist ekki þannig að allt í einu segi menn: Hér er komin ný búgrein. Það er margra áratuga vinna á bak við það. Þar eigum við möguleika.

Í dag og um ókomna framtíð skulum við vera viss um að sauðfjárræktin hefur grundvallarþýðingu fyrir byggðir landsins.