133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:12]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er hluti af því máli, þeim þætti stjórnmála sem ég hef lagt hvað mesta áherslu á á síðastliðnum fimm árum og látið mig mest varða, þ.e. hagur heimilanna og matarverðið.

Er þess skemmst að minnast að snemma á þessu þingi, í upphafi þings í október, lagði Samfylkingin fram tillögu um að lækka matarverð með því að fella niður vörugjöld, lækka virðisaukaskatt og afnema tolla og gera það í samkomulagi við bændur og búa til samning um breytingar á stuðningi við þá.

Ljóst er að í löndum þar sem gerðar hafa verið grundvallarbreytingar á umhverfi landbúnaðar hefur framleiðsla aukist og starfsemi blómgast í tengdum framleiðslugreinum. En það er afar mikilvægt að gera breytingar í góðri sátt. Þess vegna lögðum við til að gerður skyldi ásættanlegur aðlögunarsamningur við bændur áður en tollar yrðu aflagðir og að samráð yrði haft um fyrirkomulag stuðnings í framtíðinni. Við vorum fullmeðvituð um það, virðulegi forseti, að þetta mundi taka ákveðinn tíma en brýnt væri að byrja á þessu og byrja að leggja línur upp á nýtt.

Núverandi landbúnaðarkerfi er gallað og það er dýrt. Bændur búa við þrengri kost en þeir þyrftu og stöðugt fækkar í sveitum landsins. Verðlags- og samkeppniseftirlit þarf að efla og fylgjast með verðmyndun til neytandans frá bóndanum sem í vissum tilvikum fær aðeins 20% eða 40% af útsöluverði í sinn hlut.

Lækkun matarverðsins kemur að sjálfsögðu öllum til góða. Þar vil ég ekkert undanskilja bændur sjálfa. Við skulum bara horfa á að þeir bændur sem eru í sauðfjárrækt þurfa eins og aðrar fjölskyldur kaupa allar vörur til heimilis síns. Því er fráleitt hvernig þessu máli hefur ævinlega verið snúið upp á eina stétt í landinu og ég harma það.

Lækkunin er sérstaklega mikil kjarabót fyrir barnafjölskyldur og það enginn vandi að taka á þessum málum vegna þess að peningar hafa flætt í ríkiskassann á allra síðustu árum en á sama tíma hefur dregið mjög úr stuðningi við fjölskyldur. Umhverfi fjölskyldunnar hefur því miður orðið þyngra og erfiðara en nokkru sinni áður, mitt í þessari velmegun. Ég vil sérstaklega taka fram að í eldhúsdagsumræðum í gær gerði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þetta einmitt að umtalsefni og hún gerði það vel. Hún dró það saman hvernig umhverfi ungrar barnafjölskyldu er, hvað varðar allan aðbúnað, allan stuðning hins opinbera og dró fram aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Mikilvægt er í umræðu af þessu tagi að við höfum það alltaf að leiðarljósi að fjölskyldupólitík er jafnmikilvæg fyrir allar fjölskyldur hvar sem þær búa, hvort sem það er í þéttbýlinu eða í dreifbýlinu. Það á ekki að tala um okkur og þau eða segja við og þau. Þetta erum við öll. Við öll sem eigum hlut að máli.

Við höfum búið við heimsins hæsta verð og í allri umræðunni um það bregðast rökþrota stjórnmálamenn ævinlega við með því að fara að tala um bændur, að verið sé að ráðast á bændur. Við höfum aldeilis kynnst því í Samfylkingunni.

En loksins tók ríkisstjórnin við sér og áttaði sig á því að farið væri að halla undan fæti, að nokkuð ljóst væri orðið að það yrði erfitt að lifa af eftir næstu kosningar og eitt af því sem var brugðist við með var að taka loksins á honum stóra sínum og lækka matarverðið. En það varð einhvern veginn til hálfs. Virðisaukaskatturinn var lækkaður úr 14% í 7%. Vörugjöldin voru afnumin að hluta. Þau voru afnumin en þó ekki. Tollar pínulítið, án nokkurrar vinnu við kerfisbreytingar og þar með var verið að viðhalda flóknu stjórnkerfi og því viðhaldið að mikil uppsöfnunaráhrif verða sem þessir skattar ríkisins valda.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að minna á að við helmingslækkun á tollum mundu tekjur ríkissjóðs minnka um 145 millj. kr. en samkvæmt skýrslu formanns matvælaverðsnefndar kæmu inn í ríkiskassann vegna veltuáhrifa um 900 millj. kr. til baka. Ef allir tollar væru felldir niður drægjust tekjur ríkissjóðs saman um 290 millj. kr. En vegna aukinnar veltu innan lands mætti reikna með tekjuaukningu ríkisins upp á 1.800 millj. kr., 1,8 milljarða. Það er nú ýmislegt sem hægt er að gera fyrir slíka fjármuni til þess að kerfisbreytingar gangi mjúklega fyrir sig og tryggi það örugglega að úr þeim verði sá stuðningur sem ætlast er til, eins og við höfum lagt til varðandi breytingar á stuðningi við bændur.

Það er alveg ljóst að bændur eru ofboðslega hræddir við umræðuna um lækkað matarverð. Þeir eru hræddir við allar breytingar sem snúa að þeim. Þeir eru hræddir við að eitthvað verði tekið í burtu sem þeir þekkja og annað komi ekki í staðinn. Við vitum það öll, vegna þess að við erum öll með bændur í fjölskyldum okkar og eigum bændur jafnvel að nánum vinum, og við þekkjum það vel að í sumum tilfellum skilar sáralítill hluti af verðinu sér til bóndans.

Sá samningur sem hér á að fara að afgreiða er enn á ný settur fram með sama hætti og áður að pukrast er með hann bak við luktar dyr og hann kemur skyndilega fram á sjónarsviðið þegar haldinn er blaðamannafundur til að kynna hann. Ekkert samráð var haft við fagnefnd Alþingis, ekkert samráð haft við aðra þingflokka til að tryggja stuðning við að samningurinn lifi og þetta sé gert í sátt en tryggt að engar breytingar verði þó að breytingar verði á ríkisstjórn. Allt gert með gamla laginu, svolítið til bænda en kerfið fær sitt. Kerfið fær sitt. Við, hagsmunaaðilar kerfisins, pössum kerfið okkar. Það er mottó núverandi ríkisstjórnar og stjórnarliðanna á Alþingi. Það er þyngra en tárum taki.

Og af því ég nefni það hversu lítill hluti af verðinu skilar sér til bóndans, þá ætla ég aðeins fara yfir það. Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði á því könnun. Hún var ekki vísindaleg en hún leiddi margt fróðlegt í ljós og hún á fullt erindi inn í umræðuna. Hann kannaði hver munurinn á kílóverði til bóndans væri og til neytenda út úr verslun. Munurinn var æpandi. Bóndinn sem framleiðir heimsins besta lambakjöt, og það undirstrika ég hér, vegna þess að það er líka reynt í umræðunni að tala til okkar sem viljum fara aðra leið og hafa öðruvísi kerfi til hagsbóta fyrir alla, eins og við séum á móti hinni góðu, íslenskframleiddu vöru. Það er rangt.

Munurinn á kílóverði til bóndans og til neytenda var æpandi. Bóndinn sem framleiðir heimsins besta lambakjöt fékk aðeins 310 kr. fyrir hvert kíló — könnunin var gerð í fyrra — eða um 4.700 kr. fyrir 15 kílóa þungan skrokk. Ég trúði vart þeim tölum en samkvæmt könnun á verði á höfuðborgarsvæðinu kom þetta út. Og þegar skoðað var á hvaða verði lambakjöt var selt þegar búið var að saga það niður ófrosið í lambaframhryggjasneiðar, súpukjöt, kótilettur, lærissneiðar og slög og verðið á því var frá 2.515 kr. og upp í 11.198 kr. fyrir það magn sem menn settu fram, þá leiddi þessi skyndikönnun í ljós að 15 kílóa lambaskrokkur sem bóndinn fékk 4.700 kr. fyrir kostar ófrosinn og niðursagaður út úr búð um 23.000 kr. Um 23.000 kr. Verðgildi skrokksins hafði aukist um rúmar 18.000 kr. eða rúmlega 400% frá haga til maga. Bóndinn fékk 20% útsöluverðsins.

Hvaða kerfi er þetta? Hvaða aðra framleiðsluvöru er hægt að taka sem kæmist í hálfkvisti við það sem hér er á ferðinni? Og svo segja menn þegar við gagnrýnum þetta kerfi: Þau eru óvinir bænda. Sér er hver vinurinn, segir sú er hér stendur. Sér er hver vinurinn að bjóða upp á slíkt kerfi.

Þegar afkoman er skoðuð nánar og þegar maður reynir að átta sig á hvort þetta sé ábatasamur atvinnurekstur, því að allan tímann sem við ræðum þetta mál hér í þessum sal er komið upp og sagt: Þetta er allt að lagast. Búin eru að stækka. Umfangið er að aukast. Afkoman er betri. En maður veltir því fyrir sér, hvernig má það þá vera að þeir ábúendur sem maður þekkir sjálfur, þar eru yfirleitt bæði konan og maðurinn að reyna fyrir sér með aðra atvinnu meðfram búskap til að geta búið á býlinu sínu.

Hversu ábatasamur er nú atvinnureksturinn? Jú. Miðað við þessar tölur fær bóndi sem leggur inn 300 lömb að hausti eða um það bil 4.500 kíló af kjöti, samkvæmt þessu um 1,4 millj. kr. fyrir innleggið. 1,4 millj. fyrir 300 fjár. Þetta er kerfið sem stjórnarmeirihlutinn er að verðlauna. Þetta er kerfið sem þessi stjórnarmeirihluti heldur svo fast um að það má enginn að þessu koma né af því vita fyrr en blaðamannafundur er haldinn. Bóndinn fær hugsanlega 1,2 millj. kr. í greiðslu frá ríkinu. Ég ætla ekki að setja nafn á greiðslurnar því mér er alveg ljóst að þær eru flóknar. Þetta þýðir að bóndinn fær um 2,6 millj. kr. í heildartekjur miðað við það verð sem skyndikönnunin leiddi í ljós í fyrra.

Á meðan bóndinn fær 2,6 millj. kr. í sinn hlut að ríkisgreiðslunum meðtöldum kostar sama magn af kjöti 6,9 millj. kr. út úr búð miðað við framangreinda skiptingu í kjötflokka. Og reynið ekki að koma hér og telja mér trú um að þetta hafi verið einstök tilviljun, að þetta verð sé nú ekki almennt, að það sé miklu betra og miklu hærra.

En hvað gerir ríkið? Hvað gerir ríkið sem við í þessum sal erum að reyna að fá til að bregðast við breyttum tímum og breyttum kröfum og bregðast við þannig að bæði neytendur og bændur hafi sóma af? Ríkið fær af þessu 850 þús. kr. í virðisaukaskatt af útsöluverðinu eða sem nemur um það bil 70% af ríkisgreiðslunum. Þetta er alveg gasalega flott. Þetta er glæsilegt.

En þá vaknar spurningin: Hver ber ábyrgð á háu verði? Hver fær mismuninn? Hver getur og hver vill svara því? Það reyndi hv. þm. Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir, að leiða í ljós. Hún bar fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. landbúnaðarráðherra. Og skyldi maður nú hafa haldið að svörin við þeim mundu liggja ljós fyrir. Hver gerir samninga eins og þá sem við ætlum að fara að afgreiða áður en þingi lýkur öðruvísi en að hafa þessar upplýsingar á hreinu? Við skulum skoða það.

„1. Hvernig skiptist verðmyndun á helstu tegundum landbúnaðarvara á árunum 2005 og 2006, annars vegar innlendra og hins vegar innfluttra, sundurliðað milli eftirfarandi þátta, bæði hlutfallslega og í krónum: a. framleiðenda, b. heildsöluálagningar, c. smásöluálagningar, d. opinberra gjalda?“

Mundu ekki allir þingmenn í þessum sal halda að nú kæmi svar sem segði að miðað við að framleiðsluverðið sé þetta, þá skiptist verðið svona og svona og svona og út kæmi útsöluverð? Nei. Ekki hér á Íslandi. Ekki hér á Alþingi. Ekki í svari frá þessum hæstv. landbúnaðarráðherra. Svarið er nefnilega svona, með leyfi forseta:

„Ekki liggja fyrir upplýsingar um þau atriði sem spurt er um hvað innlendar landbúnaðarvörur varðar, enda er verðmyndun þessara vara frjáls og óháð opinberum verðafskiptum. Þetta á þó ekki við um tilteknar mjólkurvörur, þ.e. nýmjólk, rjóma, undanrennu, skyr (ópakkað), smjör (allir flokkar), ost (17% og 26%) nýmjólkurduft og undanrennuduft, en á grundvelli 1. mgr. 13. gr. búvörulaga ákveður verðlagsnefnd búvara heildsöluverð þessara vara, þ.e. sömu vara og verðlagðar eru skv. 8. gr. búvörulaga að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda. Sjá auglýsingu um heildsöluverð þessara vara í Lögbirtingablaðinu, dags. 21. desember 2005, og auglýsingu um lágmarksverð á mjólk til framleiðenda í Lögbirtingablaðinu, dags. 28. desember 2005. Umbeðnar upplýsingar varðandi innfluttar landbúnaðarvörur liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu, en einhver hluti þeirra kann að fást hjá Hagstofu Íslands og Samkeppniseftirlitinu.“

Svona er svarið um hvernig verðið skiptist frá framleiðendum og milli framleiðenda og heildsöluálagningar og smásöluálagningar opinberra gjalda. Svarið hefur verið lagt fram á hæstv. Alþingi, af vinum bænda.

„2. Ef framangreindar upplýsingar liggja ekki fyrir, telur ráðherra rétt að slíkar upplýsingar liggi fyrir, séu aðgengilegar og uppfærðar reglulega og er hann tilbúinn að beita sér sérstaklega fyrir því?“

Svar: „Að mati ráðherra er mikilvægt að fyrir liggi sem ítarlegastar upplýsingar um hagtölur í landbúnaði, landbúnaðarframleiðslu og verðmyndun landbúnaðarvara, m.a. í þeim tilgangi að auka sem mest gagnsæi og auðvelda ákvarðanatöku. Sama gildir um innfluttar landbúnaðarvörur og verðmyndun þeirra. Þær stofnanir sem sinna þessum málum einkum eru: Hagþjónusta landbúnaðarins, Hagstofa Íslands og Samkeppniseftirlitið. Hjá Hagþjónustu landbúnaðarins hefur á síðustu árum verið gert átak í að bæta upplýsingar um afkomu og stöðu bænda og eru þær upplýsingar í aðgengilegu formi á heimasíðu Hagþjónustunnar. Ráðherra er einnig kunnugt um nokkra bót á söfnun upplýsinga, hagtalna er heyra undir Hagstofu Íslands og varða áburðarnotkun, búfé og uppskeru, framleiðslu og kjötneyslu og veiðitalna, en það er mat ráðherra að þar þurfi að bæta um betur. Á heimasíðu Bændasamtaka Íslands er einnig að finna hagnýtar upplýsingar í þessu sambandi.“

„3. Hafa Bændasamtökin óskað eftir því að í það verði ráðist að fá fram sundurgreindar upplýsingar um verðmyndun á landbúnaðarvörum?“ — Það er mikilvægasta málið fyrir bændur miðað við það sem ég las upp um skyndikönnun sem gerð var síðastliðið sumar.

Svar: „Eftir því sem best er vitað hefur slík ósk ekki komið fram.“

Hvað er að þessu fólki? Hér erum við að gera milljarða samning. Hann á að taka gildi 1. janúar 2008. Hann á að vera í gildi út árið 2013. Svo mikill stjórnmálamaður er ég að ég geri mér grein fyrir að það væri mjög erfitt að gera samning við einhverja tiltekna stétt og taka hann upp öðruvísi en það væri a.m.k. ríkur vilji til af beggja hálfu. Hvað vita menn svo um sundurliðaðar upplýsingar og hvað vita þeir um verðmyndunina? Ekki neitt og það hefur ekki verið beðið um það.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta svar svo hrikalegt varðandi þá umræðu sem við erum í að ég blygðast mín fyrir að vera að lesa svörin upp þó að ég geri það. Fjórða spurningin sem ég les upp er, með leyfi forseta:

„4. Telur ráðherra rétt að lögfest verði að hlutur bóndans í verði landbúnaðarvara verði sérstaklega skráður á þær vörur í verslunum?“ — Sem væri væntanlega til þess að gera neytandann, kaupandann, meðvitaðan um stöðuna.

Þá telur ráðherra ekki rétt að það sé gert. Það yrði kostnaðarsamt bæði fyrir framleiðendur og neytendur og erfitt mál.

Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að ræða um þessi mál á Alþingi. Það er erfitt að ræða um matarverðið sem spannar alla matvöru í eldhúsinu okkar, hvort heldur sem það er kjöt framleitt hjá bóndanum eða kjöt framleitt sem eins konar iðnaðarvara, eins og segja má um kjúklinga og að sumu leyti um svín, eða alla hina vöruna sem er notuð og er orðin eðlileg og sjálfsögð neysluvara og valkostur. Ég tek það enn og aftur fram að á mínu heimili er lambakjötið í hávegum haft. Við vitum alveg hvað við munum halda áfram að kaupa hvernig svo sem er farið með að opna hér valkosti.

Samningurinn er ekki til góðs fyrir bændur og hann er ekki til góðs fyrir neytendur en það þyrfti núna árið 2007 að horfa í nýja tíma, í framtíðina, gera hlutina öðruvísi, með nýjum hætti, nákvæmlega eins og við vorum að reyna að taka eitt lítið skref í, Samfylkingin, með tillögum okkar og höfðum þó þau áhrif að ríkisstjórnin þykist ætla að gera það sama og við. Hún lækkar virðisaukaskattinn, hún lækkar vörugjöldin til hálfs og ætlar að lækka þau meira seinna, hún gerir pínulítið í tollum og ætlar að gera meira seinna. Hún segir því já, já, já við tillögum okkar þó að hún fari svona að og ýti vandanum á undan sér.

Ég get ekki annað, virðulegi forseti, út af umræðunni og aðbúnaðinum sem ég var að tala um áðan, aðbúnað fjölskyldnanna og útgjöld fjölskyldnanna, en nefnt raforkumálin. Samkvæmt svari hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formanns Framsóknarflokksins, Jóns Sigurðssonar, kom fram að 25% raforkunotenda hefðu fengið á sig hækkun á raforkuverði eftir að raforkulögunum var breytt. Hverjir skyldu það vera, þessi 25% sem lentu í verstu hækkuninni? Bændur og fólk í dreifbýli. Ég vona að þeir aðilar sem eiga eftir að taka ákvarðanir í þessum málum og ráða enn þá öllu og eru orðnir uppteknir af valdinu og því sem þeir mega, átti sig á því að raforkuhækkunin hefur komið allra verst niður á bændum, sauðfjárbændum.

Eitt versta dæmi sem kom fram í þeirri umræðu var að það hafi orðið allt að 60% hækkun á raforkuverði í versta tilfellinu. Það er ekki verið að horfa heildstætt á mál. Það er ekki verið að taka á málum þannig að það verði nýir tímar hjá bændum. Það er ekki verið að taka á málum þannig að horft sé til neytenda. Nei. Það er verið að halda öllu í horfinu og ákveða að ákveðin stétt manna eigi sitt undir ákveðnum stjórnmálaflokkum. Það er það sem verið er að gera með svona samningi. Þessu viljum við breyta.

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það í lokin að varðandi stuðning við búsetu í dreifbýli og atvinnugreinar erum við Íslendingar ekkert öðruvísi en nágrannaþjóðir okkar og þjóðir í Evrópu sem styðja búsetu í dreifbýli undir ýmsum formerkjum, m.a. með stuðningi við landbúnað ýmiss konar. En hér eru aðgerðirnar svo fábreyttar og gefa viðkomandi svæðum og einstaklingum ekki nægilegt olnbogarými til þróunar og búháttabreytingar. Auk þess hafa, og það hefur margoft komið fram í umræðu um dreifbýlið, undirstöðuþættir eins og samgöngur verið vanræktir gróflega. Þetta kemur niður á þróun landsbyggðarinnar og stendur í vegi fyrir að hún eflist. Þetta hefur hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, aftur og aftur bent á í umfjöllun sinni um stöðu dreifbýlisins.

Það sem við höfum fyrst og fremst gagnrýnt varðandi búfjársamninginn og er líka gagnrýni mín fyrir utan það hversu mér finnst mikil skammsýni einkenna hann, það er að verið er að binda hendur tveggja næstu ríkisstjórna og það tæpu ári áður en núverandi samningur rennur út. Eðlilegra hefði verið, eins og margoft hefur komið fram, að drög lægju fyrir og gengið yrði frá samningi að lokinni myndun næstu ríkisstjórnar. En það hvarflar ekki að stjórnarflokkunum að neitt eigi að gera í einhverju víðtæku samkomulagi. Þeir eru orðnir svo helteknir af valdinu sem þeir hafa haft, Sjálfstæðisflokkurinn í 16 ár og hinn í 12, að þeim finnst að þeir ráði öllu, megi allt og þess vegna gera þeir hvað sem er. Það er það sem er að núna í þessu máli eins og öllum öðrum. Það sem daprast er þó er að þrátt fyrir mikla fjármuni sem í samningnum felast eru bændur kvíðafullir og þeir telja samninginn gallaðan og þeir eru hræddir við niðurfellingu á útflutningsskyldunni. Af hverju ætli þeir séu svona hræddir við það? Þeir eru svo hræddir um afkomu sína. Þeir eru hræddir og kvíðafullir varðandi samning sem þessir vinir bænda eru að gera. Þetta segir sitt.

Að lokum þetta, virðulegi forseti. Rekinn hefur verið linnulaus áróður stjórnarliða og áhangenda þeirra gagnvart Samfylkingunni og þeim sjónarmiðum sem hún hefur sett fram sem eru öðruvísi en þau sem stjórnarflokkarnir hafa sett fram hingað til þó að þeir séu svo að feta í fótspor okkar hægt og sígandi með sínum hálfu sporum. Linnulaus áróður og málflutningur okkar hefur verið affluttur freklega. Því vona ég að einhverjir úr þeirra hópi séu að fylgjast með umræðunni um búvörusamninginn í dag og hafi heyrt mál mitt um hvað það er sem Samfylkingin stendur fyrir og hvað er verið að afflytja í málflutningi hennar.

Það er algjört einkamál ríkisstjórnarinnar hvernig staðið er að samningnum, hvernig hann er útfærður og okkur kemur hann ekkert við. Það var ekki haft samráð við okkur, það var ekki haft samráð við landbúnaðarnefnd, það var ekkert talað við Alþingi fyrr en hann lá tilbúinn og hafður var um hann blaðamannafundur. Á okkur er heldur ekki hlustað með ábendingar. Þess vegna verður þetta bara umræða um samning sem ríkisstjórnin ræður. Ríkisstjórnin hefur því miður setið allt of lengi. Þetta er enn eitt dæmi um hvað hún er orðin valdasjúk og að það er farið að skorta lýðræðisleg vinnubrögð á Alþingi. Fyrst og fremst ætlum við að breyta því í kosningunum í vor.