133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:22]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þessar umræður enda hafa tveir talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gert það prýðilega og gert grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls, hv. þm. Jón Bjarnason og Þuríður Backman. Við viljum standa vörð um öflugan landbúnað og hlaupumst ekki undan merkjum í þeim efnum. Við lítum á það sem samtengt hagsmunamál búgreinarinnar, úrvinnsluiðnaðarins og neytenda í landinu að fundin sé farsæl sambúð þessara aðila og við styðjum og stuðlum að því að hér sé landbúnaður og tiltekið matvælaöryggi eins og nálæg lönd yfirleitt gera. Það má segja að aðstæður okkar og Norðmanna séu að mörgu leyti hliðstæðar í þessum efnum og annarra landa þar sem menn standa við bakið á búskap við hánorrænar aðstæður. Reyndar er það svo að víða um heim og víðast hvar er landbúnaður í einhverjum mæli studdur. Aðeins örfá lönd reka hann án nokkurra styrkja og þá fyrst og fremst lönd sem hafa einstaklega hagstæð náttúruskilyrði og hagstæðar aðstæður og þá er yfirleitt um að ræða mjög þróaðan stórbúskap sem er þó rekinn á öðrum forsendum en þeim sem hefðbundinn evrópskur og vestur-evrópskur landbúnaður hefur gjarnan verið að hann er samtvinnaður menningu og búsetu og byggð viðkomandi landa og almennt viðurkennt að hann býr við nokkuð sérstakar aðstæður og um hann gilda sérstakar reglur.

Þá er og til þess að líta að heimsverslun með matvæli er langt frá því að vera á hreinum samkeppnisforsendum. Víða eru enn við lýði útflutningsstyrkir sem bjaga verðmyndun og skekkja. Tiltölulega lítill hluti heimsframleiðslunnar hefur þannig áhrif á verðmyndun á þessu sviði og það er löngu viðurkennt og tekist á um það víða á alþjóðavettvangi að á þessu sviði gilda flóknar og sérstakar reglur. Enn má bæta því við sem snýr að umhverfismálum og umhverfishlið þessarar atvinnugreinar en hún er ræktunarstarf og nýtir lífrænar auðlindir og búpening þannig að allt hangir þetta saman með ýmsum hætti.

Ég gæti farið út í langa efnisumræðu um þennan samning, virðulegi forseti, og stöðuna í íslenskum landbúnaði og hefði alveg skap í mér til að gera það og hef ýmislegt um það að segja. Ég þykist alveg vera umræðuhæfur á því sviði, reynslu minnar og þekkingar vegna. En það sem knúði mig til að biðja um orðið voru orðaleppar hæstv. landbúnaðarráðherra.

Mér finnst með endemum að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli aftur og aftur í þessari umræðu um búvörusamning, um faglegt og mikilvægt pólitískt málefni þeirrar atvinnugreinar hverrar málefni hann fer með í Stjórnarráði Íslands koma inn í umræðurnar með hreint pólitískt skítkast og orðaleppa af því tagi að það er hæstv. ráðherra til stórkostlegrar minnkunar. Hvaða erindi á það inn í umræður um búvörusamning að fara að væna menn um þröngsýni, afturhaldssemi, kommúnisma eða hvað það nú er sem hæstv. ráðherra telur einna verstu ónefnin sem hann geti skellt á menn? Og halda menn að það væri ekki meiri reisn yfir því fyrir landbúnaðarráðherra lýðveldisins að reyna að vera málefnalegur og reyna að svara yfirveguðum ræðum sem fluttar hafa verið með einhverjum rökum og einhverjum málefnum? Hæstv. landbúnaðarráðherra ræður að vísu mjög illa við slíkar umræður, það er vel þekkt. Og þá bregður hann yfirleitt annað tveggja á það að segja aulabrandara og flissa sig út úr umræðunni eins og hann væri staddur á þorrablóti eða hann fer í pólitískt skítkast og orðaval af því tagi sem hann viðhafði áðan og trekk í trekk undir þessari umræðu, aðallega í andsvörum að vísu. Fyrst við hv. þm. Jón Bjarnason, svo við hv. þm. Einar Má Sigurðarson og reyndar í fleiri tilvikum hér. Það er ekki stórmannlegt.

Nú getum við að sjálfsögðu eftir því sem við viljum fært pólitískan eldhúsdag inn í umræður um einstök þingmál eins og hér er þá verið að gera af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra. Honum nægði greinilega ekki gærkvöldið. En það vil ég segja við hæstv. landbúnaðarráðherra að ef hann ætlar að tosa fylgi Framsóknarflokksins eitthvað upp held ég að hann ætti að reyna að nota einhverjar árangursríkari aðferðir en þessar. Auðvitað er það deginum ljósara að ríkisstjórnin er farin á taugum. Það leyndi sér ekki í umræðunum í gærkvöldi að þar töluðu hræddir menn þar sem voru ráðherrar ríkisstjórnarinnar, röðuðu sér á mælendalistana og notuðu nánast allan ræðutíma sinn í að hamast í stjórnarandstöðunni, höfðu lítið fram að færa frá eigin brjósti og höfðu greinilega misst trúna á og kjarkinn hvað það varðar að þeir hefðu eitthvað það fram að færa af eigin ágæti og afrekum sem dygði til þess að þjóðin mundi kjósa þá og fela þeim aftur völdin í landinu. Nei, það var hvað stjórnarandstaðan væri hættuleg. Allur málflutningurinn gengur út á það. Og hæstv. landbúnaðarráðherra er hér enn við sama heygarðshornið.

Hann segir að vísu að þegar þjóðin fari að hugsa sig um, eins og hann orðaði það hér áðan, muni fylgi Framsóknarflokksins vaxa. Ætli það sé ekki akkúrat öfugt? Ætli það sé ekki einmitt vegna þess að þjóðin hefur verið að hugsa sig um sem Framsóknarflokkurinn er að verða að engu og verðskuldað. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að kjósendur eru fullfærir um að meta hlutina sjálfir og þeir þurfa ekki og allra síst hjálp Framsóknarflokksins til þess og leiðbeiningar og leiðsögn um það hvern þeir eiga að kjósa í vor. Framsóknarflokkurinn á að reyna að vera maður til þess, ef svo má að orði komast, að bera ábyrgð á verkum sínum en hlaupa ekki í felur, hlaupa ekki í stjórnarandstöðu og þá geta kjósendur dæmt um það hvort þeir telji að hann hafi staðið sig þannig að hann verðskuldi mikið traust og trúnað. Það er sem betur fer allt sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn fái rækilega ráðningu, sem hann á skilið, rétt eins og hann fékk í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor og leið hans niður á við í íslenskum stjórnmálum sem hefur verið samfelld, a.m.k. síðan 1995, haldi áfram.

Framsóknarflokkurinn er á góðri leið með að gera sjálfan sig að næstminnsta ef ekki minnsta flokki landsins og hann hefur við engan að sakast nema sjálfan sig. (Landbrh.: Er þetta ekki um búvörusamninga?) Ég er að nota það tækifæri sem þú bauðst upp á, hæstv. landbúnaðarráðherra, að fara í almennan pólitískan eldhúsdag og ef þú þolir ekki að þér sé svarað ættirðu að vera í einhverju öðru starfi. Það er bara þannig. Hæstv. landbúnaðarráðherra ætti þá að fá sér eitthvað annað að starfa. Ég er alveg ófeiminn við að ræða við Framsóknarflokkinn um þessa hluti en ég fer fram á það okkar allra vegna að við reynum að hafa umræðuna sæmilega málefnalega. Það er ekki stórmannlegt (Landbrh.: Byrjaðu þá.) þegar menn eru að tapa að kenna andstæðingunum um. Ég lærði snemma þá lexíu sem íþróttamaður að það þýddi lítið að væla undan því ef maður var of seinn að hlaupa. Þegar ég var að æfa frjálsar íþróttir og hlaupa í millivegalengdum á Nýja-Sjálandi hafði ég einn besta frjálsíþróttaþjálfara heimsins og þar var við ramman reip að draga þar sem voru millivegalengdahlauparar Nýsjálendinga. Ég varð oft að sæta því að vera alllangt frá því að koma fyrstur í mark. Einhvern tíma var ég að bera mig upp undan því við þjálfarann að ég hefði lítið roð við þessum miklu görpum og þá sagði hann að þeir væru svo rosalega sterkir hlauparar. Þá sagði þessi ágæti maður: Steingrímur, veistu það að það er ekki vegna þess að þeir séu of fljótir að hlaupa, það er vegna þess að þú ert of seinn að hlaupa og það er það sem á við Framsóknarflokkinn. Það þýðir ekkert fyrir Framsóknarflokkinn að væla undan því að andstæðingar hans séu of sterkir. Það er hann sem er of veikur.