133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:40]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkurn veginn með umræðunni. Ég varð satt að segja dálítið hissa á því þegar inn í hana var dregið pólitískt ástand í Austur-Evrópu fyrr á tíð. Þar höfðu menn uppi nokkuð sem kallað var áætlunarbúskapur. Hann var hugsaður þannig að það voru einstakar grunngreinar sem um var gerð áætlun fram í tímann. Fimm ára áætlanir voru þekktar, jafnvel sex ára áætlanir, sjö ára áætlanir eða eitthvað svoleiðis þar sem ríkið hafði fingurna í öllu saman, þ.e. hvernig reka ætti viðkomandi atvinnugreinar.

Hvað skyldi vera innifalið í þeim búfjársamningi sem við erum með í höndunum? Er ekki hægt að halda því bókstaflega fram að ríkið sé með fingurna víða í þessum atvinnurekstri í landbúnaði á Íslandi? Er ekki hægt að halda því fram að þetta sé ríkisrekinn atvinnurekstur að mörgu leyti þegar meira en helmingurinn af því sem bændur fá fyrir vinnu sína er greiddur úr ríkissjóði? Það eru ekki mörg ár frá því að hér voru framlög á fjárlögum til að byggja haughús í sveitum. Slík framlög voru á fjárlögum eftir að ég kom á þing, einhvern tímann á árunum 1992–1994. Þá voru afgreiddir slíkir styrkir til þessa atvinnurekstrar í landinu.

Nei, ég held að menn ættu ekki að tala um landbúnað á Íslandi eins og þar sé fullt frelsi og þar sé staðið að því með sama hætti og í öðrum atvinnugreinum. Það er ekki þannig. Þessi atvinnurekstur er meira og minna undir handarjaðri ríkisins og búinn að vera alla tíð. Það eru ekki allir sáttir við að það skuli vera þannig. Hvar er frelsi bændanna? Hafa menn frelsi til framleiðslu? Nei, menn hafa ekki frelsi til framleiðslu einfaldlega vegna þess að frelsi getur ekki verið til staðar nema að til staðar sé markaður sem dugar fyrir þeim tölum sem framleiðslan hefur. Verðið sem menn fá fyrir viðbótarframleiðsluna dugar ekki til þess.

Þess vegna geta menn ekki talað um fullt frelsi til samkeppni og framleiðslu í landbúnaði. Kerfið er ekki þannig, það er þannig að það er skammtað til aðilanna og menn hafa haldið þannig utan um þetta að þeir hafa ætlast til þess að hægt væri að stýra framleiðslunni og stuðningnum til bænda. En bæði kerfin, bæði mjólkurframleiðslan og sauðfjárafurðaframleiðslan, eru úr sér gengin af því að menn hafa leyft einhverju pínulitlu frelsi að koma þar inn sem þýðir að það er ekki hægt að halda áfram inn í framtíðina með fyrirkomulagið eins og það er. Reyndar hefðu menn átt að endurskoða það kerfi hvernig svo sem á stæði núna en það bólar ekkert á því í samningunum. Hér er haldið áfram með sama hætti inn í framtíðina eins og menn hafa gert í fortíðinni.

Það er það sem ég tel ámælisverðast í þessum samningi sem er þetta langur og inn í framtíðina, alveg til ársins 2013, að hér eru ekki stigin nema pínulítil skref inn í framtíðina.

Það eina sem skiptir verulegu máli í þessum samningi er að menn hopa frá þeirri útflutningsskyldu sem á bændum hvílir. Menn hafa auðvitað komist að raun um að hún getur ekki gengið upp. Það er ekki hægt að nota hið opinbera með þeim hætti sem var gert með þessari útflutningsskyldu. Það er ekki hægt að segja við framleiðendur í landinu: Þið skuluð flytja framleiðslu ykkar út. Jafnvel við framleiðanda sem getur selt allt sitt kjöt á markaði innan lands. Hann skal vera skyldugur til að flytja út kjöt. Ég er algjörlega sammála hæstv. landbúnaðarráðherra um að þessu þurfti að breyta. Það er jákvætt í þessum samningi.

Ég er á þeirri skoðun að á ferðinni sé samningur sem menn hefðu átt að vanda sig meira við. Af hverju skyldu menn hafa stokkið til og klárað þennan samning með þessum hætti? Svörin hafa ekki komið. Ég tel að svörin við þessu séu þau að þeir sem ráða ríkjum á ríkisstjórnarbænum og í forustu Bændasamtakanna hafi talið það öruggara ef þeir ættu að fá að halda áfram á sömu braut og þeir hafa verið á að gera þennan samning og ganga frá honum áður en þessi ríkisstjórn snýr upp tánum í vor.

Það held ég að sé ástæðan fyrir því að menn telji að svona mikið liggi á við að ljúka þessari samningsgerð. Ekki þurfti að gera það vegna þess að ekki væri nógur tími til að ganga frá þessum málum eftir að nýtt þing hefði verið komið saman að hausti. Samningurinn sem í gildi er rennur ekki út fyrr en um áramót.

Ég hafði svo sem ekki ætlað mér að halda langar ræður um þennan samning. Ég er búinn að segja það sem ég ætlaði að segja um hann við 1. umr. Ég vil þó til öryggis endurtaka það sem ég tel ástæðu til að gera í hverri ræðu sem samfylkingarmenn halda sem er það að við viljum hjálpa landbúnaðinum á Íslandi inn í framtíðina. Við leggjum ekki til að stuðningurinn verði tekinn af honum. En við gerum það að skilyrði að þær aðferðir sem eru notaðar til að hjálpa landbúnaðinum verði ekki til þess að hækka verð á öðrum vörum á markaði á Íslandi. Það er lágmarksskilyrði fyrir því að við getum stutt landbúnaðarstefnuna. Við sjáum ekkert eftir þeim fjármunum sem er verið að nota til að styðja landbúnaðinn í landinu en við getum ekki sætt okkur við að það verði til að halda uppi verðlagi á matvörum hér í landinu, á öðrum vörum en landbúnaðurinn framleiðir og selur.

Þarna þurfa menn að finna sáttaleið og líka aðferðir sem duga landbúnaðinum inn í framtíðina. Við viljum auðvitað að hér sé landbúnaður. Þegar menn tala um þá skoðanakönnun sem Bændasamtökin létu fara fram — það þurfti ekkert að gera hana. Það vita allir að fólk á Íslandi vill að hér séu framleiddar landbúnaðarvörur. En það er ekki hægt að nota slíka könnun sem einhvers konar sönnun fyrir því að viljum að það séu notaðar innflutningshömlur og annað slíkt til að hækka almennt vöruverð í landinu. Það er bara ekki þannig. Íslendingar eru tilbúnir að standa við bakið á bændum og framleiðslu þeirra og greiða hana niður en við erum ekki tilbúin til að greiða niður kjöt til útflutnings á aðra markaði. Hvað skynsemi er í því þegar menn fá ekki hærra verð en raun ber vitni á þeim mörkuðum?

Hér hefur mikið verið rætt um þessa útflutningsskyldu og vinstri grænir virðast t.d. mjög harðir á því að það eigi að halda uppi því kerfi sem segir auðvitað sitt um það hvers konar afstöðu þeir hafa til neytenda í landinu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég bara skil það ekki. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þeir átta sig ekki á því að þessi útflutningsskylda hækkar vöruverð í landinu um 1,5 milljarða á ári samkvæmt mati WTO? Auðvitað þurfum við að hætta slíku, fyrir nú utan að það er full ástæða að halda að það sé brot á samkeppnislögum að vera með þessa útflutningsskyldu.

Þessa umræðu þurfa menn að taka. Ég trúi því að menn komist að þeirri niðurstöðu að þær aðferðir sem við höfum búið við á undanförnum árum sem hafa valdið hér háu vöruverði á öðrum vörum en landbúnaðurinn framleiðir séu ótækar og við verðum að leita annarra leiða.

Ef þessi ríkisstjórn lifir ekki af kosningarnar í vor tel ég fulla ástæðu til þess að gera mér góðar vonir um það að bændur á Íslandi verði meira en tilbúnir til að ræða aðrar leiðir til stuðnings við landbúnað en þær sem hafa verið hafðar uppi fram að þessu. Ég tel reyndar að þeim hafi aldrei verið nein hætta búin af hálfu Samfylkingarinnar þó að þeir hafi kosið að ráðast gegn henni vegna þeirra tillagna sem hún setti fram. Það var svolítið öðruvísi þegar ríkisstjórnin kom með sínar þótt þær væru af sama tagi. Þetta er pólitíkin á Íslandi sem menn þurfa að búa við en það er alveg ástæða til þess að ræða um hana.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, en ég taldi ástæðu til að kveðja þennan búvörusamning með þessum hætti.