133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:58]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála síðustu orðum hv. þingmanns. Auðvitað þurfa menn að leita að friði um þessi mál. Sá friður hlýtur að verða fundinn með því að hann sé á milli allra aðila. Ég tel að sáttin eigi að vera um það að íslenskur landbúnaður, t.d. sá landbúnaður sem við erum að tala um í þessum samningi, sé styrktur í því augnamiði að hann sinni innanlandsmarkaði. Ef menn vilja síðan flytja út þessa vöru þá verði það að vera með þeim hætti að menn fái fyrir hana það verð sem til þarf.

Útflutningsbætur voru lagðar af á sínum tíma eins og hv. þingmaður nefndi. En sannleikurinn er sá að við erum farin að greiða með útflutningi á undanförnum árum. Verðið á þeim vörum sem hafa verið fluttar úr landi segir okkur að þarna sé í raun og veru verið að styrkja útflutning. Það tel ég ekki vera neinn frið um.

Mér finnst ekki heldur getað verið friður um að nota aðferðir eins og þær sem felast í útflutningsskyldunni, einfaldlega vegna þess að sú stýring inn á markaðinn sem þannig er fengin er mjög óeðlileg og mér finnst líka að menn þurfi að horfa í eigin barm hér á löggjafarsamkomunni og svara því hvort þeir telji það koma til greina að nota löggjöf í landinu til þess að skylda einstaka framleiðendur til þess að flytja vöru sína úr landi, jafnvel þó að þeir geti selt hana á innanlandsmarkaði. Það er aðferð sem ég get engan veginn skrifað upp á að geti gengið upp.

Það er þess vegna sem ég hef verið á móti þessu fyrirkomulagi ekki síður en af hinni ástæðunni. En menn verða auðvitað að bera virðingu fyrir hagsmunum neytenda í þessu líka. Sú stýring á markaðnum sem þarna er á ferðinni er metin af öðrum aðilum en mér þar sem (Forseti hringir.) menn halda því fram að um 1,5 milljarða sé að ræða á ári. (Forseti hringir.)