133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:26]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki með neinar svívirðingar. Ef ég hef verið með svívirðingar eða eitthvað ómaklegt vil ég biðja framsóknarmenn afsökunar á því. Ég held að svo hafi ekki verið, ég var einfaldlega að segja satt og rétt frá, því miður.

Vera má að það séu svívirðingar að mati ýmissa framsóknarmanna að hlusta á það en það er það ekki. Það er bara þannig að sannleikanum verður stundum hver sárreiðastur og mér finnst það vera alvarlegt þegar framsóknarmenn gera sér ekki grein fyrir því að það vantar í rauninni 1.500 manns í íbúatölu Þingeyjarsýslu síðasta áratuginn ef hún hefði verið með sama hætti og annars staðar á landinu. Þetta er afleiðing stjórnarstefnu Framsóknarflokksins.

Sama má segja um Vestfirði, þar hefur fækkað um 20% núna á örfáum árum. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur lagt atvinnuhöft á byggðirnar. Við í Frjálslynda flokknum erum ekki sátt við þessa stefnu og ég veit að margir framsóknarmenn, sem eru enn þá eða telja sig vera framsóknarmenn, eru líka ósáttir við þetta. Þess vegna erum við m.a. að sjá þessa málamyndabreytingu eða hvað þetta er. Fólk deilir um hvort þetta sé raunveruleg breyting eða hvort verið sé að festa ýmislegt í sessi og þá á ég við stjórnarskrárákvæðið um nýtingu auðlinda þjóðarinnar. Þetta kemur auðvitað við hjartað í framsóknarmönnum, þeir sætta sig ekki við þetta. Þetta er í rauninni afleiðing af stjórnarstefnunni. Menn hafa séð að Framsóknarflokkurinn hefur grafið undan byggðunum og fólkinu hefur fækkað. Þetta svíður hinum almenna borgara á Íslandi þegar hann fer (Forseti hringir.) um landið.