133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[22:57]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. formanni sjávarútvegsnefndar að nefndin tók það frumvarp til laga sem lagt var fram við 1. umr. til gagngerðrar endurskoðunar og fór nánast í gegnum alla þá liði sem þar voru fram settir og gerði á þeim breytingar.

Ég og hv. þm. Guðjón Hjörleifsson erum gamlir sveitarstjórnarmenn og í því frumvarpi sem lagt var fram var gert ráð fyrir að sveitarfélögunum yrði falið að gerast hálfgerðir verktakar fyrir ráðuneytið í úthlutun á byggðakvóta. Sá sem hér stendur var ekki ánægður í sjálfu sér hvernig að því var staðið og sérstaklega ekki hversu lítið samráð var haft við sveitarfélögin þegar unnið var að gerð þeirrar breytingar sem ráð var fyrir gert í því frumvarpi sem fram var lagt. Ég vil því spyrja hv. þm. Guðjón Hjörleifsson hvort hann sé ekki sammála mér í því að ef á að fara að fela sveitarfélögum svona viðamikil verkefni eins og þarna er um að ræða, að affarasælla væri að eiga við þau samráð áður en slíkar breytingar eru gerðar en ekki setja það fram í frumvarpi eins og gert var og sveitarfélögin nánast eins og hver annar læsu það hvað ætlast væri til af þeim.

Hv. formaður sagði að tilgangurinn með þessu væri m.a. að styrkja landvinnsluna og átti þá við ákvæðið tonn á móti tonni og ég er sammála honum að með því er verið að auka það magn sem fer til vinnslu í landi á ákveðnum stöðum, en þó sýnist mér kannski að við þyrftum að slá betri varnagla varðandi það að vinnslan þyrfti ekki að borga í rauninni markaðsverð fyrir þann fisk sem svona kæmi því ef vinnslan þarf að gera það fer kannski lítið fyrir stuðningnum sem felst í því að færa byggðakvóta til byggðarlaga.