133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

staða fjármálastofnana.

[11:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það sem er athyglisvert við þessa umræðu er að Framsóknarflokkurinn, sem einu sinni var flokkur dreifbýlisins, er að reyna að færa talið frá byggðunum sem hann hefur tekið atvinnuréttinn af og yfir á einhverja lygasögu sem verið er að búa til um að stjórnarandstaðan sé að hrekja bankana úr landi.

Þetta eru aðferðir sem mér finnst ekki vera við hæfi og menn ættu nú frekar að svara fyrir það hvers vegna þeir svíkja allt sem þeir lofuðu, allt sem þeir lofuðu byggðum landsins. Þegar á að ræða þær aðgerðir sem á að fara í, byggðunum til hjálpar, er farið með það inn í nóttina vegna þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra treystir sér ekki til að ræða þau mál hér í dagsbirtu.

Síðan kemur hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson og býr til einhverja lygasögu um að stjórnarandstaðan sé að flæma bankana úr landi. Mér finnst að hann ætti nú að koma með einhverjar röksemdir. Síðan er bullið og ruglið sem veltur upp úr stjórnarliðum hér þvílíkt að maður á eiginlega ekki orð yfir það (Gripið fram í.) hvað menn ætla að ganga langt í dellumálflutningi.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um að það eru 3% mannafla sem vinnur í bönkum, og þeir afla 6% tekna í landinu. Þetta eru nú hlutföllin. (Gripið fram í.) Þegar verið er að búa hér til að allt standi og falli með þessu — ég held að menn ættu að velta því fyrir sér hvaða kjör almenningi eru boðin í þessum stofnunum? Eiga menn að vera ánægðir með að borga hæstu vexti í heimi, nánast, og vera með verðtryggingu og þvílík kjör sem íslenskum almenningi er boðið upp á? Það ættum við að ræða miklu frekar en þessar lygasögur sem verið er að búa til af Framsóknarflokknum, sem eru mjög ómerkilegar. Þær koma frá þeim flokki (Forseti hringir.) sem hefur notað stjórnaraðstöðu sína til að sölsa undir (Forseti hringir.) sig og sína (Forseti hringir.) bankastofnanir (Forseti hringir.) í landinu.