133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra virðist misskilja málið. Hann talar um að viðhalda útflutningsskyldu. Málið snýst um heimild til að hafa hana inni. Þar er gríðarlegur munur á, sú heimild sem hefur verið síðan 1996, er einn hluti af ramma sauðfjárræktarinnar sem sauðfjárbændur benda á að sé mjög mikilvægt að hafa inni til að tryggja stöðugleika í greininni, einnig til að tryggja stöðugleika gagnvart neytendum. Það er hið alvarlega.

Bændur hafa staðið við sína samninga. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Ráðherra minntist á þjóðarsáttina. Hverjir tóku á sig stærsta hlutinn í þjóðarsáttinni? Voru það ekki einmitt sauðfjárbændur á þeim tíma? Mjólkurbændur hafa tekið á sig verðstöðvun um nokkurt skeið. En mér sýnist ekki sem aðilar í verslun hafi tekið á sig verðstöðvun.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna stóð hann ekki við gefin loforð og vilyrði í garð samninganefndar bænda varðandi heimild um að útflutningsskylda færi ekki út úr lögunum? Þannig var samningurinn kynntur, meira að segja af landbúnaðarráðherra sjálfum.