133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:06]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka honum Einari Oddi Kristjánssyni, hv. þingmanni úr Norðvesturkjördæmi, fyrir góða ræðu og skeleggt innlegg í þessa umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. En þar á að innleiða og taka inn nýjan búvörusamning sem færi inn í lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Hann lýsti því vel hvers vegna hann og hv. þm. Jón Bjarnason hafa lagt fram næstum samhljóða breytingartillögu um að halda inni ákvæði um útflutningsskyldu á dilkakjöti. Einar Oddur lagði fram sína breytingartillögu við 2. umr. og sú tillaga var felld. Nú er eftir önnur slík sem verður lögð fram við 3. umr., breytingartillaga frá Jóni Bjarnasyni sem fjallar líka um þennan varnagla, að halda möguleika á útflutningsskyldu inni að sinni.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lýsti því svo ágætlega, að þegar búinn er til gufuketill þá er settur á hann gufuventill þótt ekki sé búist við að hann springi. En ventillinn er eftir sem áður og hugsanlega þarf ekki að nota hann. En hann er þarna af öryggisástæðum. Ég tel að miðað við aðstæður, sem eru óvissar á næsta ári og næstu tveimur árum hvað varðar stöðu íslensks lambakjöts á innanlandsmarkaði, mjög skynsamlegt að hafa þennan varnagla þó vonandi þurfi ekki á að reyna. En betra er að hafa hann.

Með útflutningsskyldunni er krafa til íslenskra yfirvalda um að stuðla að og styrkja markaðssetningu á íslensku lambakjöti erlendis. Þegar við erum að bera saman mismunandi kjötframleiðslu hér á landi þá hefur íslenska lambakjötið óneitanlega sérstöðu. Það er markaðsvara sem hvergi er hægt að framleiða nema hér, við þær aðstæður að lömbin eru sett á fjöll og hafa þar af leiðandi sinn ákveðna keim. Það væri erfiðara og nær ómögulegt að reyna að koma á markað erlendis kjúklinga- og svínakjöti, eingöngu miðað við stærð markaðarins hér og enn stærri markaði í nágrannalöndunum, að ég tali ekki um þegar lengra er farið.

Svo mikill verksmiðjubúskapur er þó ekki enn orðinn hér á landi og verður vonandi ekki á næstu árum. Nema að svo illa fari að erlendir markaðir verði orðnir varasamir vegna sýkingarhættu, að það verði eftirsótt að komast í íslenskt kjúklinga- og svínakjöt vegna hreinleikans. Ég óska þeim framleiðendum alls góðs í markaðssetningu erlendis. En ég veit ekki til þess að það sé í undirbúningi eða bígerð. En það gæti verið.

Með útflutningsskylduna hefur hið opinbera einnig ákveðnar skyldur gagnvart markaðssetningu. Mörg okkar óskuðu þess að markaðssetningin hefði gengið betur, að hærra verð yrði á íslenska dilkakjötið. En raunin hefur verið að það hefur þó verið hækkandi og vonin hefur verið sú að sá markaður yrði það tryggur að það þyrfti ekki að koma til, hvorki útflutningsskyldu eða stuðnings við markaðssetningu.

En eins og við vitum er sá markaður mjög ótryggur þar sem enn hefur ekki náðst markaðssetning nema í einni mjög stórri verslunarkeðju og það má því lítið út af bregða til að markaðshlutdeild okkar í Bandaríkjunum hrynji.

Hæstv. forseti. Hér hefur verið vitnað til stöðu okkar og útflutningsskyldunnar og það sé orðið tímabært að huga að breytingum hvað varðar styrki til landbúnaðar. Það er alveg rétt. Því WTO, sem eru alþjóðasamtök í landbúnaðarframleiðslu, hafa verið nokkur undanfarin ár að vinna að alþjóðasamningum hvað varðar styrki til landbúnaðarframleiðslu. Hugmyndafræðin er þá önnur. Hugmyndafræðin er að byggja meira á svokölluðum grænum styrkjum eða styrkjum sem styrkja búsetu og eru ræktunarstyrkir og í raun og veru á þeirri hugmyndafræði að bændur séu umsjónarmenn lands og náttúru.

En það hefur gengið mun hægar hjá WTO að koma þessum samningum á en áætlað var og er hugsanlegt að samstaða þróunarríkjanna og þriðja heimsins sé að skila sér. Hin sterkari ríki, iðnríkin, hafa ekki getað fylgt eftir hugmyndum um alþjóðavæðinguna eins og þau hefðu óskað sér og þessir samningar hafa tekið lengri tíma.

Trúlega er ástæðulaust að hafa þessa svipu yfir, að þessir samningar séu að bresta á. Ég held að þeir séu í sjálfu sér ekkert að bresta á. Auðvitað á öll samningagerð hér á landi að miða að breyttri hugmyndafræði en ég held að við eigum ekki að þurfa að aðlaga okkur með það sama að samningum sem eru ekki einu sinni í höfn og munu örugglega, þegar þeir komast í höfn, hafa einhvern tíma til aðlögunar. Hugsanlega erum við að tala um tíma sem er nær þeim tíma sem sá sauðfjársamningur sem við ræðum hér um mun renna út.

En eins og hæstv. landbúnaðarráðherra sagði í sinni stuttu ræðu var gert ráð fyrir ákveðnu óöryggi á markaðnum. Árið 2009 á að hætta við útflutningsskylduna og ég tel að þar hefði hæstv. ráðherra mátt bæta við að búið er að samþykkja breytingu á tollum á innflutningi á kjöti, heimildir til innflutnings hafa verið auknar, innflutningskvóti er hækkaður og verið var að fella niður tolla á innfluttu kjöti. Nú er alveg víst að innflutningur á kjöti verður í nýja veru. Hvar væri þá markaðssetningin? Það væri þá í ódýrari vöru. Það er þá spurning hvaða kjöti sú ódýrari vara ryður út. Það er gagnvart slíkum breyttum aðstæðum sem sauðfjárbændur standa og í rauninni ekkert síður bændur sem eru í framleiðslu á hvíta kjötinu því að þetta mun örugglega koma við þá líka.

En segjum nú svo, hæstv. forseti, að markaðurinn verði ótryggur og umtalsverður innflutningur verði, eða að neytendur taki vel við sér og það verði góð sala á auknu magni af innfluttu kjöti. Það kemur auðvitað niður á þeirri framleiðslu sem núna er í landinu. Ef við lítum á sauðfjárbændur sem eru með kjöt í hærri verðlagningu fyrir neytendur þá blasir bara tvennt við, það er annaðhvort verðfall, verðhrun á lambakjötinu, með þeim afleiðingum að bændur verða gjaldþrota eða verða að bregða búi, eða þá að bændur fari í stórfelldan niðurskurð. Þetta mun einnig hafa áhrif á búsetu og afkomu sauðfjárbænda. Það er því einungis tvennt í dæminu.

Ég tel að 300 milljónir á ári sé ekki há upphæð til að mæta þessu mikla óöryggi. Miðað við fjárhagsafkomu sauðfjárbænda skil ég hæstv. landbúnaðarráðherra að fara að ráðum lögfróðra manna og vilja ekki af lagatæknilegum ástæðum taka upp samninginn 2008, eins og hann var búinn að lofa bændum, og taka þá inn þetta ákvæði að afnema útflutningsskylduna, því að þessar 300 milljónir til sauðfjárbænda, miðað við þá hörmulegu stöðu sem margir þeirra eru í, tel ég að hafi gefið tilefni til þess að 2008 sé ótti hæstv. landbúnaðarráðherra yfir því að samningnum yrði illilega ruggað ekki ástæðulaus. Það gæti sem sé mjög trúlega komið í ljós að umræddar 300 milljónir væru engin ofrausn inn í sauðfjársamninginn án þess að taka tillit til markaðsóöryggis sem er fram undan. Ég skil því hæstv. landbúnaðarráðherra að vilja ekkert rugga skútunni með það að gefa bændum ekki tækifæri til þess að taka upp samninginn 2008 ef meta ætti stöðu þeirra á þeim tíma.

En það er margt fleira sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefði getað haft áhrif á til þess að styrkja stöðu sauðfjárbænda annað en þessi sauðfjársamningur. Hann hefði getað staðið betur með bændum með því að standa að því að sú ríkisstjórn sem fer að fara frá gætti þess að bændur og þeir sem eru að hefja búrekstur fái hagstæð lán, að það verði auðveldara fyrir bændur að endurnýja á býlum sínum og koma nýjum ábúendum að. Hann hefði getað beitt sér fyrir því að lækka rafmagnskostnað hjá bændum sem er alveg að fara með kúabændur og sérstaklega ylræktina. Hann hefði getað beitt sér fyrir því að ríkisstjórnin sæi fyrir betri og öruggari fjarskiptum sem hindra það að margir bændur geta stundað eðlileg samskipti og verið í vinnu meðfram búi sem byggist á góðu fjarskiptasambandi. Hann hefði getað beitt sér fyrir því að hraustlegar yrði tekið á hvað varðar samgöngur um allt land og síðast en ekki síst hefði hann getað beitt sér fyrir því að flutningskostnaður væri lægri fyrir bændur og alla landsmenn.

Ég veit ekki hvað hæstv. landbúnaðarráðherra hefur beitt sér í þessum málum en eitt er víst að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert það og m.a. þess vegna er staða margra sauðfjárbænda mjög erfið og er ekki eingöngu sauðfjársamningnum um að kenna heldur miklu frekar og jafnframt öllu ytra umhverfi sem snýr að íbúum í dreifbýli.