133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:49]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Jóni Gunnarssyni að miðað við rekstur stofunnar upp á 20 millj. kr. og þau litlu verkefni sem hún er að sinna þá tel ég að ef ekki rætist úr með þessum lögum þá eigum við að skoða hvort við eigum að sameina eftirlitsþáttinn inn í eitthvert annað fyrirtæki eða reyna að auka eftirlitsþátt Verðlagsstofu og láta þá hafa þá nóg að gera. Því það er alltaf hægt að hagræða í ríkisrekstri og þetta er hluti af því.

Ég tel að þarna hafi verið allt of lítil starfsemi og kannski eru menn allt of ragir við að leita til Verðlagsstofu þegar þá greinir á og kannski leysa þeir mál sín heima í héraði varðandi þátt sjómanna og ná einhverjum öðrum samningum.

En í þessum lögum er líka tekið tillit til þess að við vitum að það voru til samningar þar sem menn voru að semja um mjög lágt fiskverð, lægra verð en markaðsverð. Menn töldu það vera hluta af því að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. En þau örfáu mál sem eru samkvæmt reikningum og skýrslu Verðlagsstofu eru óeðlilega fá.