133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[00:02]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef þegar haft orð á því að það eru skýr skilaboð m.a. í frumvarpinu til atvinnurekstrarins, að mönnum beri að stíga varlega til jarðar. Öll merki eru um að gerðar verði strangari kröfur, kröfur til meiri takmarkana á nýju skuldbindingartímabili Kyoto og það eru þau skilaboð sem m.a. er verið að gera með frumvarpinu.

Svo vil ég aðeins leiðrétta hv. þingmann, að samningaviðræður hafa þegar hafist og það er meira að segja gert ráð fyrir að þeim ljúki ekki seinna en árið 2009 þannig að fyrirtæki geti sett sig í stellingar gagnvart því sem tekur við eftir að samningstímabilinu lýkur. Áherslan er lögð á að það verði ekki seinna en 2009 sem þessu ljúki. Það er því tiltölulega skammur tími til stefnu en viðræðurnar eru farnar af stað og það eru auðvitað sterk skilaboð um hvaða reglur muni gilda eftir árið 2012, m.a. í þeim markmiðum sem ríki heims hafa sett sér, Evrópusambandsríkin, íslenska stefnumörkunin og ýmis önnur. Mér sýnist það því gefa til kynna hvert við stefnum.

Síðan aðeins varðandi losunarheimildirnar og verðlag þeirra, þá er líka rétt gagnvart markaðnum að halda því til haga, þetta er afskaplega óstöðugur markaður innan ESB og ein losunarheimild í dag leggst á 1,25 evrur þannig að þetta er ekki verðlagt hátt. Verðið var allt að því hundraðfalt hærra en svona lítur markaðurinn út í dag. Í grunninn er ég mjög sammála því og tel nauðsynlegt að við komum á þessum hagrænu hvötum og verðleggjum heimildirnar til lengri tíma litið.