133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[10:13]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þessi atkvæðagreiðsla snýst um að með þessu frumvarpi mun heimilt að semja um það við handhafa vinnsluleyfis að þeir verði eigendur kolvetnis sem unnið er á hafsbotni. Með þeirri aðferð sem þarna er lögð til breytist ótvíræð þjóðareign á kolvetni í séreign við vinnsluna og eigandinn, íslenska þjóðin, tekur alla áhættu af mismunandi rekstri þeirra fyrirtækja sem vinna kolvetni.

Það lá fyrir að engar tillögur voru til frá fjármálaráðuneytinu sem á að fara með þessa gjaldtöku. Því var ekki hægt að fara yfir það hvernig staðið yrði að gjaldtökunni auk þess sem Orkustofnun eru færðar mjög víðtækar heimildir til að úthluta svæðum til rannsókna án auglýsinga. Það er þess vegna sem við leggjum til að þessu máli verði vísað frá. Hér er illa að verki staðið.