133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:18]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þeim mun betur sem við búum að kennurum þessa lands og kennaranáminu þeim mun betra verði menntakerfið. Ég held að við séum algjörlega sammála um það. Ég held að það skref sem stigið er með þessu frumvarpi og þessari sameiningu sé akkúrat skref í þá átt.

Ég vil líka nota tækifærið, frú forseti, og þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð. Ég get endurgoldið honum þau með því að segja að ég hef verið afar ánægður með störf hans og annarra nefndarmanna í tengslum við þetta mál. Ég tel að nefndarmenn hafi unnið af mjög miklum heilindum. Þrátt fyrir að það séu tvö nefndarálit, frá meiri og minni hluta, leggja samt bæði meiri og minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og að þessir tveir skólar verði sameinaðir. Einhver áherslumunur er hjá meiri og minni hluta varðandi ýmis útfærsluatriði en engu að síður erum við sammála um að þetta sé skref í rétta átt og ég fagna því. Forsvarsmenn þeirra tveggja skóla sem í hlut eiga eru sammála um að stíga eigi þetta skref.

Ég vildi koma þessu á framfæri. Ég held að við höfum unnið gott starf í nefndinni og að þar hafi allir lagt sitt af mörkum og unnið af miklum heilindum. Ég vænti þess, eins og aðrir nefndarmenn, að þessi sameining verði til framfara fyrir kennaramenntun í landinu.