133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

uppbygging ferðaþjónustu á Melrakkasléttu.

36. mál
[14:10]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um úttekt á stöðu og möguleikum á uppbyggingu ferðaþjónustu á Melrakkasléttu.

Greinargerð hv. þingmanna Halldórs Blöndals og Arnbjargar Sveinsdóttur sem fylgdi þessari tillögu til þingsályktunar er athyglisverð og ætla ég að vitna aðeins til upphafs þeirrar greinargerðar. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Áður var talið búsældarlegt á Melrakkasléttu og sagt að þar þyrfti lítið fyrir lífinu að hafa. Á vorin gætu menn lagst upp í loft og æðurin yrpi ofan í þá. Þeir þyrftu ekki annað en leggjast á vatnsbakkann og þá synti silungurinn upp í þá. Og þegar vetur settist að var sóttur raftur í fjöruna og honum stungið inn um vegginn í eldstæðið og síðan ýtt inn eftir þörfum og eftir því sem brynni. Fjörubeit var hvergi betri og voru sjóarær teknar í fóstur fyrir bændur sem bjuggu lengra inn til landsins. Enn eru á vörum fólksins sögur af Sveinungsvíkurhvalnum sem rak á fjöruna þar í harðindunum upp úr 1870 og komu bændur með sleða úr Kelduhverfi og austan úr Vopnafirði til að sækja sér lífsbjörgina.“

Virðulegi forseti. Margt merkilegt hefur gerst í þessum landshluta og er full ástæða til að taka undir þessa þingsályktunartillögu en nefndin hefur sent frá sér svohljóðandi álit:

Með tillögu þessari er lagt til að samgönguráðherra í samvinnu við landbúnaðarráðherra og ráðherra byggðamála skipi nefnd sérfróðra manna og heimamanna til að gera úttekt á því hvernig unnt sé að byggja upp ferðaþjónustu á Melrakkasléttu. Í því sambandi er lagt til að horft verði til náttúru svæðisins, sögustaða og hlunninda og hvernig vekja megi athygli á Melrakkasléttu sem vænlegum kosti fyrir ferðamenn.

Nefndin leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Hjálmar Árnason, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðjón A. Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Guðmundur Hallvarðsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller, Kjartan Ólafsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Jón Kristjánsson.