134. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:06]
Hlusta

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 24. maí 2007 var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 31. maí 2007. Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 24. maí 2007.

Ólafur Ragnar Grímsson.

 

_____________

Geir H. Haarde.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman fimmtudaginn 31. maí 2007.“

 

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Það er jafnan hátíðarstund þegar Alþingi kemur saman, elsta stofnun Íslendinga, framvarðarsveit á nýjum tímum; sérstakur blær þegar hér hefur á nýjan leik verið skipað til sæta í samræmi við vilja fólksins.

Við höfum átt því láni að fagna að lýðræði á hér dýpri rætur en í flestum löndum öðrum. Upphaf ríkis var stofnun Alþingis á Þingvöllum við Öxará, lög og réttur gerð að grundvelli samfélagsins. Sjálfstæðisbaráttan var háð með orðsins brandi; héraðsfundir, bænarskrár, blöð og tímarit tækin sem færðu fullnaðarsigur. Kosningaþátttaka varð smátt og smátt til muna meiri en annars staðar; almenningi metnaðarmál að eiga greiða leið að alþingismönnum.

Sá jarðvegur lýðræðis sem hér hefur myndast er í senn arfleifð frá fyrri öldum og sköpunarverk síðari tíma, er auðlind en líka aðhald — auðlind sem veitir sérhverri kynslóð veigamikið veganesti og aðhald sem endurspeglar takmörk valdsins, áminning um að þjóðin á jafnan síðasta orðið.

Kosningarnar fyrr í maí voru vitnisburður um að lýðræðishefðin er áfram sterk og hefur reyndar öðlast nýjan þrótt. Þátttakan einstök sem fyrr; Ísland í sérflokki hvað það snertir en víða á Vesturlöndum eru merki um hnignun í því efni. Að auki veitti nú fjölmiðlaflóran öllum flokkum fjölþætt tækifæri til að koma boðskap til skila. Hin margradda umræða í sérhverjum miðli er ótvíræð framför frá fyrri árum þegar flokksmálgögnin þrengdu að og umræðuþættir í ljósvakamiðlum voru fáir.

Það sýnir styrk að gerlegt reynist að endurnýja lýðræðið og efla þrátt fyrir umbreytingar samfélagsins, stakkaskipti fjölmiðlanna og að æ fleiri áhugasvið móta atferli fólksins. Einkum er árangurinn fagnaðarefni sé horft til annarra átta og hreyfiafl og myndbirting lýðræðisins borin saman við reynslu þjóða vítt og breitt um veröldina, líka meðal elstu lýðræðisríkja á Vesturlöndum.

Þótt sitt sýnist hverjum um úrslitin, eins og gengur, getum við í sameiningu fagnað því að kosningarnar voru til vitnis um að lýðræðið er á raunsannan og lifandi hátt grundvöllur stjórnskipulagsins; samgróið menningu, hugsun og þjóðfélagsgerð Íslendinga.

Ég óska alþingismönnum til hamingju með traustið sem þjóðin hefur sýnt ykkur hverjum og einum. Ótvíræður trúnaður er í því fólginn að vera kjörinn alþingismaður, að axla æðstu ábyrgð sem lýðræðið veitir, vera falið að setja lög sem móta örlög einstaklinga, þjóðarinnar.

Einkum býð ég velkomna í þennan sal þá fjölmennu sveit sem hér situr nú í fyrsta sinn en óvenjumikil endurnýjun varð í kosningunum. Verður fróðlegt að fylgjast með nýjum straumum sem slík tímamót hafa jafnan haft í för með sér.

Reynslan kennir okkur þó að árin líða undrahratt og hver og einn þarf að nýta vel umboðið sem þjóðin veitir alþingismönnum. Flestum er sjálfsagt þannig farið að finnast ærinn tími fram undan en rétt er þá að hafa í huga að mannaskipti hafa reynst hér tíð. Nú er enginn eftir í þessum sal sem á Alþingi sat þegar ég kom hér fyrst — og hefur sú mikla saga sem það mannval skóp nánast liðið sem örskotsstund.

Ríkisstjórnir koma og fara og svo hefur reyndin orðið nú. Ég óska nýju ráðuneyti og ráðherrum öllum velfarnaðar í vandasömum verkum sínum um leið og ég þakka þeim sem yfirgáfu ríkisráðið fyrir þjónustuna, hollustu við þjóðarhag og farsæla samvinnu við forsetann.

Þegar litið er yfir farinn veg hefur valdavægi á lýðveldistíma verið slíkt að fyrr eða síðar vinna nánast allir með öllum. Samvinnan reynist þegar upp er staðið þýðingarmeiri en ágreiningur, flokkadrættir falla í skuggann.

Þótt eðlilega setji víglína stjórnar og stjórnarandstöðu svip á þingið, eins og vera ber, eru mál hér afgreidd í æ ríkara mæli með samkomulagi allra flokka; kannski vegna þess hvernig stjórnmálin hafa tekið sífellt meiri mið af umsköpun þjóðfélagsins og sáttargjörð á öðrum sviðum.

Ágreiningur, oft djúpstæður og langvarandi, verður þó aldrei umflúinn með öllu enda ólík viðhorf og andstæðar stefnur áhrifaþættir í flokkaskipan. Mikilvægt er að þingheimur allur kappkosti jafnan að ólík afstaða til deilumála fari ekki svo úr böndum að þjóðin lamist vegna deilna og nái ekki að nýta dýrmætan samtakamátt.

Við höfum á liðnum vetri orðið vitni að því að ágreiningur sem klauf þjóðina í áratugi gufaði upp og í staðinn kom víðtæk samvinna við að breyta gamalli herstöð í háskólabyggð, nýta herskála fyrir námsmennina, gera vopnabúr að vísindastöð.

Í viðræðum við forustumenn fremstu háskóla í Ameríku hef ég fundið einlægan og ríkan áhuga þeirra að gerast þátttakendur í þeirri vegferð, að vera með okkur í því að þróa háskólabyggð í herstöðinni og helga þannig samvinnu yfir Atlantshafið sem áður var mótuð af köldu stríði ögrandi viðfangsefnum í vísindum og tækniþróun á okkar tímum. Við getum virkjað til samstarfs nýja bandamenn og staðið þannig að málum að eftir verði tekið víða um veröld.

Við sjáum nú í hverri viku vitnisburð um nýja heimsmynd, um tækifærin sem blasa hvarvetna við Íslendingum.

Nýr orkuskóli á Akureyri gerði fyrir nokkrum dögum merkan samning við menntamiðstöð rússneska utanríkisráðuneytisins, samning um rannsóknir og fræðslu þar sem nýting hreinnar orku er kjarninn.

Fjöldi áhrifafólks í listaheimi og viðskiptalífi Evrópu og Ameríku tókst langferð á hendur nú í maí, hélt til Stykkishólms að fagna nýju Vatnasafni sem fræg listakona skóp í samvinnu við heimamenn. Þar varðveita fagrar súlur vatn úr íslenskum jöklum, áminningu um að loftslagsbreytingar skapa jarðarbúum nýja ógn, að jöklarnir hopa um allan heim, að kannski verður loks ekkert eftir af jöklum landsins nema vatnið í súlunum í Stykkishólmi.

Já, ábyrgð okkar og tækifæri eru annarrar ættar en áður var. Við erum nú í heimsbraut miðri.

Þjóð, sem um aldir bjó einangruð í sárri fátækt við ysta haf, berast nú samvinnutilboð úr öllum áttum; áskoranir um að taka höndum saman við framvarðarsveitir á ólíkum sviðum. Óskir af því tagi að við hefðum fyrir fáeinum árum ekki haft hugmyndaflug til að orða þær.

Á slíkum tímum er heillandi viðfangsefni að vera kjörinn á Alþingi Íslendinga, að fá tækifæri til að feta með öðrum nýjar leiðir, vera þátttakandi í skapandi stefnumótun.

Ég óska nýkjörnu Alþingi allra heilla á komandi árum og bið þingheim að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Jóhönnu Sigurðardóttur, 5. þm. Reykv. n., að ganga til forsetastóls.