134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé óeðlilega að verki staðið og það geti ekki samræmst þingsköpum, þeim reglum sem Alþingi starfar eftir. Ég held að það sé best að ég fari fram á það við forseta að haldinn verði fundur í sjávarútvegsnefnd þingsins á mánudag til að ræða stöðuna sem uppi er í byggðum landsins.

Ég vænti þess að hæstv. forseti muni verða við þeirri bón minni. Hún er sjálfsögð og eðlileg en það sýnir í hnotskurn í hvaða fúafen er verið að fara með þá tillögu sem hér er lögð til, ef nefndir eru ekki til sem eiga að fjalla um mál sem við eigum rétt á að fjalla um. Þessari ósk minni er hér með komið á framfæri.

Ég vænti þess að hæstv. forseti leysi úr henni eftir þingsköpum.